*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 29. september 2020 14:30

10 til 30 vindmyllur á Mosfellsheiði

Til stendur að reisa allt að 200 MW vindmyllugarð á Mosfellsheiði. Í fyrsta áfanga yrði tíu 150-200 metra háar vindmyllur.

Ritstjórn
epa

Félagið Zephyr Iceland ehf. stefnir á að reisa allt að 200 MW vindmyllugarð á Mosfellsheiði. Þetta kemur fram í tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum sem birt hefur verið á vef Skipulagsstofnunar.

Þar segir að í fyrsta áfanga verkefnisins sé stefnt að því að reisa 50-60 MW vindmyllugarð sem svo sé unnt að stækka frekar. Í fyrsta áfanga verkefnisins geti risið tíu 5-6 MW vindmyllur sem verði um 150-200 metra háar þegar spaðar verða í hæstu stöðu. Með áframhaldandi vexti í raforkueftirspurn er svo stefnt á að reisa tuttugu vindmyllur til viðbótar þannig að heildarafl verði um 150-200 MW.

Í tillögunni segir að á Mosfellsheiði séu hagstæð vindskilyrði, tiltölulega einfalt er að tengjast raforkuflutningskerfinu. Þá sé aðgengi að svæðinu með besta móti og svæðið einkennist nú þegar af orkumannvirkjum í formi hitaveitulagnar og háspennulína auk þess sem nokkrar stærstu jarðhitavirkjanir landsins eru í næsta nágrenni.

Zephyr Iceland er að dótturfélag norska vindorkufyrirtækisins Zephyr A/S en þá er Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr á Íslandi, jafnframt hluthafi í íslenska félaginu í gegnum Hreyfiafl ehf.