Kröfuhafar félagsins Fjölnisvegur 9 ehf fengu rétt rúmar 90,6 krónur af hverjum 100 krónum sem þeir lánuðu félaginu. Félagið var í eigu Hannesar Smárasonar, fyrrverandi forstjóra FL Group. Það var úrskurðað gjaldþrota 22. júlí árið 2011 og lauk skiptum 14. febrúar síðastliðinn.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að lýstar kröfur í þrotabúið námu 1.609.528.239 krónum, þ.e. rétt rúmum 1,6 milljörðum króna. Í blaðinu segir að fallið var frá köfum upp á 53,8 milljónir króna og fengust greiddar 1.389.605.227 krónur og 161.117.907 krónur. Út af standa rétt tæpar 150 milljónir króna.

Félagið hélt utan um tvær fasteignir í eigu Hannesar, einbýlishús við Fjölnisveg 11 og íbúð í London. Landsbankinn tók félagið yfir í kringum hrunið og eignaðist fasteignirnar. Þær hafa báðar verið seldar. Íbúðin í London var seld um mitt ár 2011. Útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson keypti svo húsið við Fjölnisveg fyrir tveimur árum.

Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2010 voru fasteignir félagsins metnar á rúma 1,1 milljarða króna.