Sænski símaframleiðandinn Ericsson AB, jók hagnað á öðrum ársfjórðungi um 18%. Aukning hagnaðar er fyrst og fremst vegna niðurskurðar í kostnaði og aukinnar eftirspurnar.

Nettóhagnaður nam alls 5,8 milljörðum sænskra króna eða 0,37 krónum á hlut. Á sama tíma fyrir ári skilaði fyrirtækið 5 milljarða hagnaði. Heildartekjur námu 38,4 milljörðum sænskra króna.

Ericsson hefur náð að fækka starfsmönnum um nær helming frá árinu 2000 en einnig hefur eftirspurn eftir símkerfum fyrirtækisins aukist verulega þar sem símafyrirtæki hafa þurft að stækka kerfin til að anna aukinni notkun. Forráðamenn Ericsson búast við að í heild muni tekjur fyrirtækisins aukast um 5-10% á árinu.