Allir verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir Landsbréfa skiluðu jákvæðri ávöxtun á fyrstu sex mánuðum ársins og nam afkoma sjóðanna alls 6.858 milljónum króna. Hagnaður Landsbréfa nam 301 milljónum króna á tímabilinu. Þetta kemur fram í tilkynningu Landsbréfa til Kauphallar .

Eignir í stýringu Landsbréfa voru 163 milljarðar króna í lok tímabilsins. Hagnaður verðbréfa- og fjárfestingarsjóða í rekstri hjá félaginu sem rennur til viðskiptavina í formi ávöxtunar nam 6.858 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 1.879 milljónir króna á sama tímabili árið á undan. Hrein eign verðbréfa- og fjárfestingarsjóða í rekstri hjá félaginu í lok júní var 123 milljarðar króna samanborið við 109 milljarða króna í lok síðasta árs. Heildar eignir í stýringu í lok júní voru 163 milljarðar króna samanborið við 155 milljarða króna í lok síðasta árs. Hreinar rekstrartekjur námu 912 milljónum króna.

„Rekstur Landsbréfa og sjóða félagsins gekk vel á fyrri helmingi ársins. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá góða ávöxtun verðbréfa- og fjárfestingarsjóða Landsbréfa. Rekstur Landsbréfa sjálfra gekk einnig vel á tímabilinu, en hagnaður á fyrri árshelmingi var rúmar 300 milljónir og eru Landsbréf því að skila Landsbankanum eiganda félagsins góðri arðsemi.," er haft eftir Helga Þór Arasyni, framkvæmdastjóra Landsbréfa í tilkynningunni.