Undirskriftasöfnunin á Þjóðareign.is lauk á miðnætti á fimmtudaginn og söfnuðust alls 51.538 undirskriftir. Forsvarsmenn undirskriftarsöfnunarinnar munu afhenda forseta Íslands listann síðar í mánuðinum.

Undirskriftasöfnunin þjóðareign.is hófst 1. maí s.l. en þar er eftirfarandi áskorun beint til forseta Íslands:

„Við undirrituð skorum á forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.“

Undirskriftasöfnunin varð sú fimmta stærsta sem farið hefur framm á Íslandi og svöruðu undirskriftirnar til um 21% af áætlaðri tölu kjósenda á kjörskrá.

Undirskriftasöfnuninni var hrundið af stað í kjölfar þess að lagt hafði verið fram stjórnarfrumvarp um úthlutun heimilda til makrílveiða til sex ára með sjálfvirkri framlengingu. Nú liggur fyrir að þetta frumvarp verður ekki afgreitt fyrir þinglok en boðað hefur verið að það verði tekið upp aftur á haustþingi.