Alls var um 55 starfsmönnum Salt Pay sagt upp á þriðjudaginn, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Fyrir uppsagnirnar störfuðu um 130 manns hjá fyrirtækinu. Salt Pay, sem keypti Borgun í júlí á síðasta ári, tilkynnti á þriðjudaginn að það hefði ákveðið að fækka talsverðum fjölda starfsfólks en tók þó ekki fram hversu mörgum hafi verið sagt upp.

Fyrirtækið sagði einnig að ákvörðunin næði aðallega til þeirra sem störfuðu við að þróa og viðhalda eldra greiðslukerfi Borgunar. Heimildir Viðskiptablaðsins segja hins vegar að uppsagnirnar hafi einnig náð til lögfræðiteymis, áhættustýringar og deildarstjóra.

Í lok nóvember var tilkynnt um að 29 starfsmönnum hefði verið sagt upp sem hluti af „umbreytingu Borgunar yfir í þjónustumiðað tæknifyrirtæki“. Fyrirtækið hafði á mánuðunum á undan ráðið 60 nýja starfsmenn . Síðasta sumar var tólf starfsmönnum úr æðsta stjórnendalagi Borgunar sagt upp.