*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Innlent 28. október 2020 15:36

600 milljarðar á innlánsreikningum

Sparnaður heimilanna hefur aukist um 90 milljarða milli ára, eða um nærri fimmtung, á sama tíma og sum verslun hefur aukist.

Ritstjórn
Íslensk heimili virðast spara meira í faraldrinum en áður.
Haraldur Guðjónsson

Íslensk heimili virðist spara meira en áður, þrátt fyrir að kortavelta Íslendinga hafi aukist talsvert í september að því er farið er yfir í Hagsjá Landsbankans. Þannig virðist sem sparnaðurinn hafi aukist um tæplega fimmtung milli ára í september á verðlagi hvors árs, eða um 90 milljónir, og stóð hann í 600 milljörðum króna í september.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum dróst kortavelta nokkuð saman milli ágústmánaðar og september, en samt sem áður er ríflega fjórðungsaukning veltu í september milli ára.

Bent er á að aukning eyðslu í raf- og heimilistækjaverslunum í september í ár miðað við fyrra geti verið vegna þess að mörg heimili hafi þurft að koma sér upp vinnuaðstöðu heima við. Einnig hafa velta aukist í byggingavöruverslunum, búsáhaldaverslunum, áfengisverslunum og fataverslunum.

Eins og gefur að skilja var svo minna eytt á veitingastöðum, í eldsneyti, í enningar- og tómstundastarfsemi og ferðalög, sem aftur getur skýrt aukna fataverslun innanlands.

Þrír fjórðu aukning í september frá fyrra ári

Sumir útgjaldaliðir hafa sveiflast mikið, til að mynda jókst kortavelta á snyrtistofum í maí um 77% milli ára á raunvirði þegar þær gátu loks opnað á ný eftir lokanir, og telur greining bankans að gera megi ráð fyrir viðlíka aukningu þegar þær opna á ný eftir lokun núna í október.

Að sama skapi virðist sem heimilin spari meira en áður, en mörg þeirra gætu verið að fresta neyslu, til að mynda að spara fyrir utanlandsferðum, eða koma sér upp varúðarsjóði vegna óvissunnar sem ríkir í efnahags- og atvinnulífinu.

Þannig var í september nú mun hærri upphæð inn á velti- og óbundnnum innlánsreikningum Íslendinga en á sama tíma í fyrra, eða 600 milljarðar króna í heildina sem er um 90 milljarða króna aukning frá sama tíma fyrir ári eins og áður segir.

Þetta jafngildir 18% aukningu sé litið til breytingar milli ára á verðlagi hvers tíma, og 13% sé horft til breytingar miðað við fast verðlag.