Mánaðarlega berast okkur fréttir af eignastöðu lífeyrissjóðakerfisins íslenska og yfirleitt teljast það miklar gleðifréttir. Hrein eign sjóðanna er komin yfir 2 þúsund milljarða króna og fer ört vaxandi. Vitaskuld eru þetta óvenjulega háar tölur, meira að segja á mælikvarða áranna fyrir hrun og ljóst er að fjárfestingargeta sjóðanna er gríðarleg. Vandinn er bara sá að eignastaðan sjálf, sem og afkomutölur, segja fráleitt alla söguna um raunverulega stöðu lífeyrissjóðanna enda þarf einnig að taka tillit til framtíðartekna auk áfallinna skuldbindinga og framtíðar skuldbindinga. Því er mun betra að líta til tryggingafræðilegrar stöðu sjóðanna sem gefur mun betri mynd af raunverulegri stöðu.

Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna er reiknuð út frá samtölu eigna þeirra og núvirtra framtíðariðgjalda að frádregnum skuldbindingum, áföllnum og núvirtum framtíðarskuldbindingum. Sé tryggingafræðilega staðan neikvæð felur það í sér að sjóðirnir hafi ekki getu til þess að standa við allar skuldbindingar sínar og sé hún jákvæð þýðir það að sjóðirnir geti staðið við allar skuldbindingar og gott betur.

Áfallin staða

Mikill halli er á áfallinni stöðu margra lífeyrissjóða landsins samkvæmt nýrri skýrslu Fjármálaeftirlitsins um stöðu lífeyriskerfisins í árslok ársins 2010. Þetta felur í stuttu máli í sér að eignir sjóðanna í árslok dugðu ekki til þess að standa við þau réttindi sem sjóðirnir hafa lofað að veita í skiptum fyrir þau iðgjöld sem þeir hafa þegar innheimt. Í skýrslunni segir: „Áfallnar skuldbindingar eru skuldbindingar vegna iðgjalda sem greiddar höfðu verið til sjóðsins þegar athugun fer fram, að viðbættu mati á framtíðar rekstrarkostnaði. Eign er reiknuð sem hrein eign til greiðslu lífeyris samkvæmt ársreikningi að viðbættu endurmati verðbréfa með fastar tekjur, að frádregnum núvirtum framtíðarkostnaði vegna fjárfestinga. Áfallin staða er svo mismunur þannig reiknaðra eigna og skuldbindinga.“

Segja má að þessi árlega skýrsla FME sé besta heimildin sem við höfum um raunverulega stöðu sjóðanna því hún byggir á skýrslum sem lífeyrissjóðirnir verða lögum samkvæmt að senda eftirlitinu svo það geti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu með þessum mikilvægu stofnunum fjármálakerfisins.

Skortir 400 milljarða í skjóli ríkisábyrgðar

Heildartryggingafræðleg staða lífeyriskerfisins í heild sinni er 18,1% og alls vantar kerfið 652 milljarða króna upp á til að geta staðið við heildarskuldbindingar sínar. Mestu munar þar um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem skortir nær 400 milljarða króna í skjóli ríkisábyrgðar sinnar. Fátt er þó svo með öllu illt að ekki boði það nokkuð gott en í lok ársins 2009 skorti lífeyriskerfið 744 milljarða til þess að geta staðið við heildarskuldbindingar sínar. Þá var heildartryggingafræðilega staðan neikvæð um 20,8%. Staðan fer því batnandi þótt enn sé langt í land.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)