*

laugardagur, 16. janúar 2021
Innlent 13. janúar 2021 18:39

70% viðskipta með bréf Arion

Erlendur aðili seldi 2,3% í bankanum fyrir 3,4 milljarða króna. Icelandair hækkaði mest, en VÍS lækkaði mest.

Ritstjórn

Gengi bréfa Icelandair hækkaði mest allra á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi í dag, eða um 2,68%, í 92 milljóna króna viðskiptum. Lokagengi bréfanna nam 1,54 krónum.

Næst mest hækkun var á bréfum Arion banka, eða um 1,49%, upp í 95,10 krónur, í langmestu viðskiptum dagsins eða fyrir 4,3 milljarða króna. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins á markaði segja að þar vegi mest sala erlendra aðila á 40 milljón hlutum á genginu 94, eða fyrir tæplega 3,4 milljarða króna.

Það samsvarar um 2,3% eignarhluta í bankanum, en meðal stærstu erlendu hluthafanna í bankanum eru Taconic Capital með 23,22%, Sculptor Capital Management með 6,12%, Eaton Vance með 2,11% og MainFirst Bank AG með 1,14% samkvæmt nýjasta listanum yfir stærstu hluthafa bankans.

Heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag námu 6,4 milljörðum króna, svo viðskiptin með bréf Arion banka námu tæplega 70% af þeim. Úrvalsvísitalan hækkaði í viðskiptum dagsins um 0,43%, upp í 2.629,34 stig. Þriðja mesta hækkunin var á bréfum Reginn, eða um 1,10%, upp í 23,05 krónur, í 219 milljóna króna viðskiptum.

Hástökkvari gærdagsins stóð í stað

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Sjóvá, eða fyrir 376,1 milljón króna, en bréf félagsins stóðu í stað í þeim í 30,10 krónum. Sjóvá hækkaði mest í viðskiptum gærdagsins en bréf þess hafa hækkað um yfir 40% síðustu þrjá mánuðina.

Þriðja félagið sem raðaði sér í toppsæti yfir mestu viðskiptin í dag var eins og svo oft áður Marel, en þriðju mestu viðskiptin, eða fyrir 339,1 milljón króna, voru með bréf félagsins. Hækkuðu bréf Marel í þeim um 0,36%, upp í 825 krónur.

Mest lækkun var á bréfum VÍS, eða um 3,05%, niður í 14,30 krónur í 236 milljóna króna viðskiptum. Næst mesta lækkunin var á bréfum Brim, það er 2,55%, niður í 51,65 krónur, í 181 milljóna króna viðskiptum.

Loks lækkuðu bréf Skeljungs um 0,99%, sem var þriðja mesta lækkunin, og fóru þau í litlum 6 milljóna króna viðskiptum þar með niður í 10 krónur. Það er þó enn fimmtungi yfir 8,315 króna yfirtökutilboði sem gert var í félagið undir lok síðasta árs.

Aftur ein viðskiptamynt af þeim helstu sem sker sig úr

Þveröfugt við gærdaginn veiktist íslenska krónan í dag gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum í dag, utan einnar. Það er sænsku krónunnar sem veiktist um 0,26% gagnvart þeirri íslensku, og fæst hún nú á 15,381 krónu.

Norska krónan styrktist hins vegar mest, eða um 0,64%, upp í 15,102 krónur, en 0,26% styrking evrunnar, upp í 155,88 krónur, og 0,23% styrking Bandaríkjadals, upp í 128,18 krónur, var sú minnsta.