Samkvæmt skýrslu sem Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur á Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri, hefur unnið fyrir Greiða leið ehf. ? framkvæmdafélag vegna Vaðlaheiðarganga - um mat á þjóðhagslegri arðsemi Vaðlaheiðarganga - er þjóðhagslegur heildarábati gerðar ganganna um 1,2 milljarðar króna, þ.e. ábatinn er á núvirði tæpum 1,2 milljörðum kr. hærri en kostnaðurinn við framkvæmdina.

Þá leiðir skýrslan í ljós, miðað við gefnar forsendur, að arðsemi framkvæmdarinnar er um 7,9%, með öðrum orðum að þjóðfélagið fær 7,9% arð af því fé sem kostar að gera göngin.

Jón Þorvaldur kynnti skýrsluna 13. janúar, fyrir Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra, Hreini Haraldssyni, framkvæmdastjóra hjá Vegagerðinni, og Jóhanni Guðmundssyni, skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu, en þeir þremenningar komu norður yfir heiðar og kynntu sér rannsóknir og ýmiskonar forathuganir sem Greið leið ehf. hefur verið að vinna að vegna mögulegra Vaðlaheiðarganga. Áður en skýrslan var formlega kynnt var þeim Sturlu, Hreini og Jóhanni sýndir þeir staðir vestan og austan Vaðlaheiðar þar sem líklegt er að gangamunnar Vaðlaheiðarganga verði. Með í för voru Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, Halldór Jóhannsson, stjórnarmaður í Greiðri leið ehf. og framkvæmdastjóri KEA, Bjarni Jónasson, varamaður í stjórn Greiðrar leiðar, og skýrsluhöfundur, Jón Þorvaldur Heiðarsson.

Eins og fram hefur komið voru sl. sumar boraðar rannsóknaholur í Vaðlaheiði til þess að fá gleggri mynd á jarðlög svæðisins, vatnsleka í berginu o.s.frv. Úr þessum gögnum er nú unnið. Stefnt er að því að í vor verði gerðar rafsegulmælingar á svæðinu.

Nú stendur yfir hlutafjáraukning í Greiðri leið og er gert ráð fyrir að hlutaféð í félaginu verði um 75 milljónir króna, en heimild er til allt að 100 milljóna króna hlutafé.

Beðið er niðurstöðu umferðarkönnunar Vegagerðarinnar sem hún gerði sl. sumar á umferð um Víkurskarð, en hún mun leiða betur í ljós en áður ?samsetningu" umferðar um þennan veg, hvert fólk sem þarna á leið um er að fara o.s.frv. Þessar upplýsingar koma að góðum notum inn í það rekstrarlíkan sem unnið er með vegna Vaðlaheiðarganganna, en Vegagerðin er þessa dagana að yfirfara það.

Þá hefur Vegagerðin í samvinnu við Verkfræðistofu Norðurlands verið að skoða vegtengingu við göngin við Hallandsnes, vestan Vaðlaheiðar, og Skóga, austan Vaðlaheiðar.

Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA) hefur á undanförnum mánuðum arðsemismetið mikinn fjölda jarðaganga. Síðastliðið sumar mat stofnunin tvo kosti á Vestfjörðum og sl. haust voru fimmtán jarðgangakostir á Vestfjörðum metnir. Af þessum kostum reyndist arðsemin vera mest af göngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar eða 5,3%, stutt göng undir Berufjörð leiddi í ljós 4,2% arðsemi og göng milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar rétt um 4% arðsemi.

Greið leið óskaði eftir því að RHA gerði sambærilega úttekt á arðsemi Vaðlaheiðarganga.

Í forsendum Jóns Þorvaldar í skýrslunni er ekki gert ráð fyrir gjaldtöku í göngin, þau verði opnuð 1. janúar 2011, framkvæmdatíminn verði þrjú ár ? 2008-2010, göngin verði 7,16 km og vegskálar 0,24 km, stofnkostnaður verði 560 milljónir kr. pr. km í göngum, 930 milljónir kr. pr. km í skálum og vegir kosti 120 milljónir króna pr. ? heildarkostnaður röskir fjórir milljarðar auk um 400 milljóna króna fjármagnskostnaðar. Stytting leiðarinnar austur í Fnjóskadal styttist um tæpa16 km með Vaðlaheiðargöngum.

Út frá þessum forsendum kemst Jón Þorvaldur að þeirri niðurstöðu, eins og áður segir, að að þjóðhagslegur heildarábati gerðar ganganna sé tæplega 1,2 milljarðar króna og arðsemin 7,9%. Þarna er miðað við að farið yrði í framvæmdina í þeim þjóðfélagsaðstæðum, eins og nú eru, að atvinnuleysi sé í lágmarki og bogi atvinnulífsins almennt töluvert spenntur. Ef hins vegar yrði ráðist í Vaðlaheiðargöng við þær aðstæður að slaki væri í efnahagslífinu yrði ábatinn af göngunum töluvert meiri en 7,9%. Sama er uppi á teningnum ef stóriðja risi við Húsavík eða í Eyjafirði. Slíkt myndi þýða umtalsvert aukna umferð um Vaðlaheiðargöng, að mati Jóns Þorvaldar.

Í módeli Jóns Þorvaldar er gert ráð fyrir 9 milljóna króna rekstrarkostnaði á ári og um þrjár milljónir sparist árlega við viðhald vegarins um Víkurskarð.
Jón Þorvaldur telur að ef göngin verði gerð í einkaframkvæmd, sem gengið er út frá, minnki ábatinn eitthvað, en verði veggjald hóflegt verði áhrifin á heildarniðurstöðuna lítil og niðurstaðan því jákvæð.

Á kynningarfundinum í gær fór Sturla Böðvarsson, samgönguráðhera, mjög jákvæðum orðum um þá vinnu sem Greið leið hefði þegar unnið í undirbúningi Vaðlaheiðarganga segir í frétt á heimasíðu KEA.

Ráðherra sagði að það hefði verið staðið vel að málum, skýrsla Jóns Þorvaldar væri mjög gott innlegg í undirbúningsvinnuna sem og sú rannsóknavinna sem væri í gangi undir stjórn Ágústs Guðmundssonar, jarðfræðings, og brýndi samgönguráðherra forsvarsmenn Greiðrar leiðar til þess að vinna áfram að málinu á þessum nótum.