Mikill meirihluti í könnun MMR, eða 86,5%, vill draga Breta fyrir dóm vegna beitingar hryðjuverkalaga. Nei sögðu 13,5% svarenda.

Könnunin var gerð fyrir þjóðmálafélagið Andríki dagana 8. – 11. mars síðastliðinn. Spurt var: Telur þú að íslensk stjórnvöld hefðu átt að stefna breskum stjórnvöldum fyrir dóm vegna beitingar hryðjuverkalaga gegn Íslendingum í nóvember 2008?

Úrtakið var 902 einstaklingar á aldrinum 18 – 67 ára. Afstöðu tóku 72,7%. Rúm 24% sögðust ekki vita hver afstaða þeirra var til spurningarinnar og 3,1% vildu ekki svara.

Ekki er marktækur munur á afstöðu kynja. Mikill meirihluti í öllum aldurs-, menntunar-, tekju- og starfshópum telur að draga hefði átt Breta fyrir dóm vegna beitingar hryðjuverkalaganna.

Í tilkynningu er bent á að fyrir Alþingi liggi tillaga til þingsályktunar frá Gunnari Braga Sveinssyni og 13 öðrum þingmönnum um málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaganna.