Actavis hefur keypt lyfjafyrirtækið Allergan fyrir 66 milljarða bandaríkjadala. Fréttaveitan AP greinir frá þessu og hefur eftir Actavis að 219 dollarar í reiðufé og hlutafé verði greitt fyrir hvern hlut í Allergan, sem framleiðir bótox.

Lyfjafyrirtækið Valeant hafði líka sóst eftir því að kaupa Allergan og lagði fram tilboð í apríl og svo annað í maí. Síðara tilboðið var upp á 53 milljarða bandaríkjadala. Fyrirtækið segir nú að það gæti ekki jafnað tilboð Actavis því það geti ekki réttlætt það fyrir hluthöfum.

Hlutabréf í bæði Actavis og Allergan hækkuðu við þessi tíðindi. Allergan hækkaði um 6,8% en Actavis um 3,6%.