Hætt er við að fátækustu ríkjum heimsins muni reynast mun erfiðara að takast á við kórónufaraldurinn en Vesturlöndum, og þær aðgerðir sem þar hafa verið notaðar gætu reynst afar varasamar í fátækari löndum.

Ákveðnir þættir vinna þó með fátækari löndunum, en lítil reynsla er komin á áhrif faraldursins og mótvægisaðgerða gegn honum þar enn sem komið er. Þó hafa næstum öll Afríkulönd þegar greint smit, og veiran því farin að dreifa sér víðsvegar um heimsálfuna.

Auðvelt val á Vesturlöndum
Ríkisstjórnir flestra Vesturlanda hafa fyrirskipað allt frá samkomubönnum og félagsforðun (e. social distancing) til strangra útgöngubanna að viðlögðum refsingum. Ýmiss konar starfsemi liggur niðri, og mörg fyrirtæki sem aðeins fyrir örfáum vikum sáu fyrir sér arðbært sumar hafa nú litlar sem engar tekjur.

Þrátt fyrir þung efnahagsleg áhrif og óvissu mótmæla þó fáir aðgerðunum, enda stendur valið á milli þeirra eða hundraða þúsunda eða jafnvel milljóna dauðsfalla. Til að koma til móts við efnahagsáhrifin hafa yfirvöld flestra landa sem um ræðir tilkynnt fordæmalausar mótvægisaðgerðir, og þótt ljóst sé að lífsviðurværi margra muni raskast verulega, er ekki við öðru að búast en að þegar fram líða stundir komist vestræn samfélög nokkurn veginn heil í gegnum hremmingarnar.

Staðan er hins vegar önnur og flóknari í fátækustu löndum jarðar. Sárafátækt og erfiðleikar við að útvega helstu nauðsynjar gera það að verkum að oft má lítið sem ekkert út af bregða. Hundruð milljóna lifa dag frá degi án nokkurs teljandi sparnaðar eða öryggisnets.

Fyrir þeim kann valið að verða milli þess að brjóta útgöngubann og freista þess að afla sér lífsviðurværis, eða hlýða því og horfa upp á fjölskyldu sína svelta. Yfir 100 milljónir farandverkamanna sækja atvinnu til stórborga á Indlandi. Margir þeirra eru nú á vergangi vegna útgöngubanns, og sumir freista þess að labba hundruð kílómetra til síns heimaþorps.

Vantraust á yfirvöldum er að jafnaði mikið, og þau í mörgum tilfellum eru afar veikburða. Innviðir eru víða ófullnægjandi – bæði til að skima og rekja – en einnig til að hlúa að þeim sem veikjast. Við það bætast svo pólitískur óstöðugleiki og veik löggæsla. Allt mun þetta gera faraldurinn erfiðari viðureignar.

Fjórfalt færri dauðsföll við óhefta útbreiðslu
Samanburðurinn við Vesturlönd er þó ekki alfarið neikvæður. Íbúar þróunarlanda eru að jafnaði mun yngri en þeirra þróuðu, og þótt veiran hafi vegið fólk á svo til öllum aldri er hún langtum skæðust meðal þeirra eldri. Samkvæmt tölum Heimsbankans eru 17,4% íbúa hátekjulanda yfir 65 ára aldri, en aðeins 3% íbúa lágtekjulanda.

Margtilvísað spálíkan hins breska Imperial College gerir því ráð fyrir fjórfalt færri dauðsföllum í Afríku sunnan Sahara en í OECD-ríkjunum ef veiran fengi að breiðast út óheft. Fátækari ríki eru einnig að jafnaði dreifbýlli en þau ríkari.

Af ofangreindu er ljóst að spurningin um íþyngjandi aðgerðir til að sporna við útbreiðslu veirunnar er langt því frá eins borðleggjandi og á Vesturlöndum. Samkomu- eða útgöngubann hefði mun verri áhrif, og óheftur faraldur tæki mun færri líf. Samanlagt gæti það þýtt að aðgerðirnar kostuðu fleiri mannslíf en þær björguðu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .