Hópur fjárfesta sem keypti samanlagðan 44% hlut í Högum fyrir hlutafjárútboð og skráningu félagsins hafa hagnast um 3.120 milljónir króna síðan í febrúar. Það jafngildir rúmum 10 milljónum króna hagnaði á dag með helgum.

Hafa ber í huga að um óinnleystan gengishagnað er að ræða en fjárfestarnir skuldbundu sig til að eiga eignarhlutinn í tiltekinn tíma eftir skráningu félagsins á markað.

Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson - Vogabakki
Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson - Vogabakki
© BIG (VB MYND/BIG)

Fjárfestahópurinn keypti upphaflega 34% hlut í Högum í nafni Búvalla í febrúar á genginu 10 krónur á hlut en nýtti sér rétt til að bæta 10% hlut við í nóvember á genginu 11 krónur á hlut.

Samanlagt kaupverð hópsins á 44% hlut í Högum nam 5.480 milljónum króna. Markaðsvirði hlutarins er nú 8.600 milljónir króna. Heildarvirði Haga miðað við gengi hlutabréfa félagsins nemur nú 19,5 milljörðum króna.

Gengi hlutabréfa í Högum stendur nú í 16 krónum á hlut og hefur það hækkað um 52% miðað við meðalgengið 10,5 krónur á hlut. Til samanburðar nam gengið í hlutafjárútboði Haga 13,5 krónum á hlut og er gengishækkunin síðan þá 18,5%.

Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson - Vogabakki
Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson - Vogabakki
© BIG (VB MYND/BIG)

Upphaflegi fjárfestahópurinn sem keypti hlutabréf Haga keypti hann í nafni Búvalla. Breyting varð á hluthafahópnum í síðasta mánuði þegar lífeyrissjóðirnir ákváðu að skrá hlutafjáreign sína í Högum í eigin nafni.

Búvellir eru eftir sem áður stærstu hluthafar Haga með 20,9% hlut. Virði eignahlutarins nemur tæpum 4,1 milljarði króna. Stærstu eigendur Búvalla eru þeir Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson sem eiga hlut sinn í gegnum félagið Hagamel; Capital, sem er í eigu Sigurbjörns Þorkelssonar og Tryggingamiðstöðvarinnar, Íslenski athafnasjóðurinn sem heyrir undir Stefni, Miranda, félag Berglindar Jónsdóttur, og Draupnir, fjárfestingarfélag Jóns Diðriks Jónssonar.