Afgangur á vöruskiptum Japans við útlönd jókst umfram væntingar í júlímánuði, eða um 44,2% frá sama tíma ári áður. Um er að ræða tólfta mánuðinn í röð þar sem afgangur á vöruskiptum eykst, en hann nam 1.137,8 billjónum jena í júlí. Útflutningur frá Japan hefur aukist mikið á árinu, en nú vekur athygli að hann hefur dregist lítillega saman í júní og júlí. Það ýtir undir áhyggjur af því að hægari uppgangur í Bandaríkjunum og Kína geti tafið fyrir efnahagsbata Japans.

Í Morgunkorni Íslandsbanka kemurfram að hagvöxtur í Bandaríkjunum og í Kína hægði lítillega á sér á öðrum ársfjórðungi, en útflutningur Japans hafði ekki borið þess merki fyrr en nú í júní og júlí. Hagvöxtur var 4,4% á öðrum ársfjórðungi í Japan, en til samanburðar var hann 4,8% í Bandaríkjunum og 9,6% í Kína á sama tíma. Spáð er 3,4% hagvexti í Japan yfir árið, skv. könnun á vegum Bloomberg. Þá spáir JPMorgan Chase & Co. því að dollari muni lækka gagnvart jeninu á næstunni, eða nema um 107 jenum í lok september en 103 jenum í lok ársins segir í Morgunkorninu.