Sterkt jen og náttúruhamfarir settu stórt strik í afkomu japanska bílaframleiðandans Honda á þriðja ársfjórðungi í sumar. Hagnaður fyrirtækisins nam 60,4 milljörðum jena, jafnvirði rétt tæpra 90 milljarða íslenskra króna. Þetta er 56% minna en á sama tíma í fyrra.

Í uppgjöri fyrirtækisins kemur fram að gengi japanska jensins á tímabilinu hafi dregið úr sölu áuk þess sem náttúruhamfarirnar og flóðin í Japan í mars hafi truflað bílaframleiðsluna. Stjórnendur Honda segja flóðin í Taílandi nú geta valdið frekari röskun á afköstum fyrirtækisins þar sem varahlutir í bíla og mótorhjól eru framleidd í Taílandi. Af þeim sökum verður erfitt að spá fyrir um afkomuna, að sögn AP-fréttastofunnar.

Sala Honda dróst að meðaltali á heimsvísu saman um 16,3% á milli ára. Mestur var samdráttur í Bandaríkjunum, 22,3%. Á sama tíma og bílasala dróst saman á milli ára jókst salan á nýjum mótorhjólum um 14,2%