Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að endurskoðuð tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2016 feli í sér að afkoma ríkissjóðs muni batna um rúmlega 70 milljarða og að heildartekjur hans muni losa 1.100 milljarða króna á árinu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Ráðherra kynnti nýja áætlun á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun og segir aðalskýringu á bættri afkomu vera sú að allt stöðuleikaframlag slitabúa föllnu bankanna hafi verið tekjufært á þessu ári.

„Við ætluðum að tekjufæra hluta af stöðuleikaframlaginu á næstu tveimur árum, vegna þess að framlagið kom í raun í stað bankaskattarins. Þegar þetta var skoðað gekk það ekkert upp að tekjufæra framlagið á næstu tveimur árum, vegna þess að það bera að tekjufæra hlutina þegar þeir falla til” sagði ráðherra í viðtali við Morgunblaðið.

Bjarni segir að vegna þessa tekjufærist á þessu ári 35 milljarðar króna sem til hafi staðið að tekjufæra á næstu tveimur árum. Það sé helmingurinn af þessum 70 milljörðum króna en en hinn helmingurinn er um 25 milljarða króna arðgreiðslur úr bankakerfinu umfram áætlanir og um 11 milljarðar króna í bættar skatttekjur. Segir Bjarni þetta vera mjög ánægjuleg tíðindi og talsvert umfram væntingar á þessu ári.