*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Innlent 22. ágúst 2019 15:53

Afkoma Sjóvá jókst um 2,5 milljarða

Sjóvá gerir nú ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta verði 4,3 milljarðar en áður var gert ráð fyrir 4,2 milljarða hagnaði

Ritstjórn
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá.
Aðsend mynd

Sjóvá hagnaðist um 2,6 milljarða króna á fyrri helmingi ársins og jókst hagnaður félagsins um tæplega 2,5 milljarða frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins fyrir annan ársfjórðung sem birt var fyrir skömmu. Hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 1.548 milljónum króna samanborið við 630 milljóna tap á sama tímabili í fyrra. 

Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta nam 989 milljónum á fyrri hluta ársins og ríflega tvöfaldaðist milli ára. Á öðrum ársfjórðungi nam afkoman af vátryggingarstarfsemi 578 milljónum og jókst um 531 milljón milli ára. 

Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta nam 1.953 milljónum á fyrri helmingi ársins en 259 milljóna tap var af starfseminni á sama tímabili í fyrra. Ávöxtun fjárfestingarsafns félagsins var 7,9% á tímabilinu en var 0,7% í fyrra. 

 Afkoma af fjárfestingarstarfsemi nam 1.184 milljónum á öðrum ársfjórðungi samanborið við 680 milljóna tap á sama tíma í fyrra. Ávöxtun fjárfestingarsafns félagsins var 4,2% á tímabilinu en var neikvæð um 1,3% í fyrra.

Samsett hlutfall á fyrri helmingi ársins var 96,2% en var 101,3% á sama tímabili í fyrra. Samsett hlutfall var 94,5% á öðrum ársfjórðungi en var 105,2% á sama tíma í fyrra. Samsett hlutfall  er tjónakostnaður, endurtryggingakostnaður og rekstrarkostnaður af vátryggingahluta sem hlutfall af iðgjöldum.

Þá hefur Sjóvá hækkað afkomuhorfur sínar fyrir árið í ár upp á við. Félagið gerir nú ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta muni nema 4,3 milljörðum en áður var gert ráð fyrir 4,2 milljarða hagnaði auk þess sem gert er ráð fyrir að samsett hlutfall verði 95%. Þá gera uppfærðar horfur til næstu 12 mánaða ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta nemi um 3 milljörðum króna og að samsett hlutfall verði 95%. 

Í tilkynningu vegna uppgjörsins er haft eftir Hermanni Björnssyni, forstjóra Sjóvár: 

„Afkoma á fyrstu 6 mánuðum ársins nam 2.601 m.kr. og eru fjárfestingarstarfsemi og vátryggingarekstur að skila góðri afkomu og mikilli bætingu  á milli ára. Á sama tíma fyrir ári var afkoman neikvæð af fjárfestingarstarfsemi auk þess sem nokkur stór tjón höfðu haft neikvæð áhrif á vátryggingarekstur og ýkir því sveiflur á milli ára. Yfir skemmri tímabil eru sveiflur sem þessar algengar í vátryggingarekstri.

Áframhald er á góðum vátryggingarekstri með 15,5% vexti eigin iðgjalda frá sama tíma og í fyrra. Vöxturinn er bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Þessi kröftugi vöxtur undanfarin ár hefur átt sér stað án þess að hann kalli á sérstakan útgjaldaauka og hefur þar með haft jákvæð áhrif á kostnaðarhlutfall sem lækkar umtalsvert og er nú 20% fyrir fyrstu 6 mánuði ársins.

 Við leggjum áherslu á að vera þjónustufyrirtæki í fremstu röð og að veita þjónustu sem bæði viðheldur góðum viðskiptum og stuðlar að nýjum. Sem dæmi hafa starfsmenn lagt á sig mikla vinnu við að heimsækja þá staði og viðskiptavini sem talist geta í áhættuhópi í þeim tilgangi að fara yfir brunavarnir og aðra áhættuþætti í ljósi tíðra stórbruna undanfarin ár. Þessum heimsóknum hefur verið tekið afar vel enda allra hagur að komið verði í veg fyrir alvarleg slys og tjón. Til að halda sterkri stöðu okkar á vátryggingamarkaði er mikilvægt að stafræn sem og önnur þjónusta verði veitt á forsendum viðskiptavina og að þeirra þörfum verði mætt hverju sinni. 

Ávöxtun eignasafns félagsins var umfram væntingar á fyrstu 6 mánuðum ársins en góð afkoma er bæði af skráðum hlutabréfum og skuldabréfum. 

Horfur félagsins hafa verið uppfærðar úr 4.200 m.kr. hagnaði fyrir skatta í 4.300 m.kr. hagnaði fyrir skatta á árinu 2019. Áfram er gert ráð fyrir að samsett hlutfall verði um 95% á árinu 2019. 

Horfur um afkoma fyrir skatta til næstu 12 mánaða (3F 2019 – 2F 2020) hafa verið uppfærðar í 3.000 m.kr. úr 3.800 m.kr (2F19-1F20). Skýring þessarar lækkunar er að nýliðinn annar ársfjórðungur byrjaði sérlega vel og tóku spár mið af því auk þess sem vextir hafa nú lækkað. Horfur um samsett hlutfall til næstu 12 mánaða er óbreytt í 95%. 

Horfur taka tillit til afkomu félagsins það sem af er þriðja ársfjórðungi.“ 

Stikkorð: Sjóvá