Niðurstaða útkomuspár fyrir yfirstandandi rekstrarár sveitarfélaga landsins er heldur verri nú en fyrir ári, að því er segir í Morgunblaðinu í dag. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir niðurstöðuna þó ekki koma á óvart.

"Sambandið tekur saman upplýsingar einu sinni á ári um rekstur sveitarfélaganna og við sjáum að útkoman í ár er nokkru verri en frá árinu á undan. Niðurstaðan kemur okkur þó ekki á óvart þegar haft er í huga að gengið var frá stórum kjarasamningum á síðasta ári, t.d. við grunnskóla- og tónlistarkennara en grunnskólinn er stærsti útgjaldaliður sveitarfélaganna," segir Halldór við Morgunblaðið.

Heildartekjur sveitarfélaga eru áætlaðar 236,5 milljarðar kr´pona og heildarútgjöld 216,1 milljarðar Rekstrarniðurstaða rekstrarreiknings er 1,3% af heildartekjum. Framlegð á hvern íbúa er áberandi minnst hjá Reykjavíkurborg. Heildarframlegð sveitarfélaga minnkar um rúma 2,0 milljarða króna frá fyrra ári eða úr 22,6 milljörðum í 20,4 milljarða. Framlegð er 8,6% af heildartekjum árið 2014, samanborið við 10,4% árið áður.