Félögin 20 á aðalista Kauphallarinnar högnuðust um samtals 47,3 milljarða króna á síðasta ári og jókst hagnaður þeirra um tæplega milljarð eða 2,1% á milli ára. Samtals jókst hagnaður 13 félaga á milli ára á meðan afkoma sjö þeirra versnaði.

Hagnaður síðustu tveggja ára er nokkuð minni en árið 2016 þegar hann nam samtals 51,7 milljörðum og árið 2017 þegar hann nam 56,1 milljarði en þá voru alls 16 félög á aðalmarkaðnum. Þess má geta að Össur, sem hvarf úr Kauphöllinni í desember 2017, er ekki inni í tölum fyrir árin 2016 og 2017 auk þess sem frá ársbyrjun 2018 hafa Arion banki, Heimavellir, Kvika banki og Iceland Seafood bæst við á aðallistann en afkoma þeirra er inni í tölum fyrir síðustu tvö ár.

Samtals jókst afkoma 13 félaga á milli ára. Mest jókst hagnaður Reita og Sjóvá á milli ára eða um 3,2 milljarða hjá báðum félögum á meðan afkoma Arion banka og Origo versnaði um tæplega 6,7 og 4,8 milljarða sem skýrist þó að mestu af einskiptisliðum.

Töluvert flökt var í afkomu félaganna á milli ára en hjá 10 félögum sveiflaðist afkoman um meira en milljarð á milli ára og hjá 11 félögum hreyfðist hún hlutfallslega um meira en 50%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .