Von er á afkomuspám frá greiningaraðilum á næstu dögum og vikum. Á morgun birta Hagar uppgjör fyrir tímabilið september til nóvember 2012. IFS Greining gaf út afkomuspá í lok síðustu viku og gerir ráð fyrir 6,6% tekjusamdrætti á milli fjórðunga sem er örlítið meira en í fyrra. Bent er á að 3. ársfjórðungur sé fremur pasturslítill, líflegir sumarmánuðir séu að baki og jólasalan vart komin á skrið.

Rekstrarár Haga nær frá 1. mars til 28. febrúar. Spáð er 5,0% tekjuvexti milli ára sem er nokkru hærra en 4,2% verðbólga á sama tíma. IFS Greining telur Haga vera stöðugt félag en umhverfið sé hins vegar veikburða. Fyrirtækið sé með forskot á flesta keppinauta í innkaupsverði og leiðir því verðlagningu á markaðnum.

„Hins vegar er fyrirtækið auðvitað ekki alveg ónæmt fyrir umhverfi sínu. Nú eru ýmis merki á lofti um að sá vöxtur sem verið hefur í einkaneyslu, kortaveltu og viðlíka mælikvörðum sé að minnka og sé um það bil enginn að raungildi. Það kann að vera ástæða til að lækka eilítið spágildi fyrir rekstur félagsins,“ segir í afkomuspá IFS.

Ítarlega skýringu um hlutabréfamarkaðinn má lesa í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.