Eigendur aflandskrónueigna sem bundnar eru lögum um gjaldeyrishöft hér á landi telja að aflandskrónuútboð seðlabanka Íslands hafi brotið gegn stjórnarskrá og undirbúa nú málsókn á hendur íslenska ríkinu. Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins um málið. Aflandskrónueigendur hafa þá kvartað til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, sem eru evrópsku fríverslunarsamtökin.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma var öllum tilboðum þar sem 190 krónur voru boðnar í hverja evru tekið. Gengi evrunnar eins og það er í dag er um það bil 140 krónur. Seðlabankinn greiddi 47 milljarða króna í gjaldeyri fyrir þessi tilboð sem voru þá 72 milljarðar íslenskra króna.

Meðal aflandskrónueigendanna eru tveir sjóðir, Autonomy Capital LP og Eaton Vance Management, en lögmaður þeirra, Pétur Örn Sverrisson hefur farið fram á að hlutlausir matsmenn leggi mat á efnahagslegar aðstæður með tilliti til lögmætis aflandskrónuútboðsins. Sjóðirnir eiga þá um 200 milljarða króna í aflandskrónum.

Sjóðirnir telja að með lögunum sé brotið gegn eignarétti þeirra samkvæmt stjórnarskrá. Einna helst finnst þeim þá að brotið sé á þeim með tilliti til mismununar á grundvelli þjóðernis auk þess sem brotið er á jafnræðisreglu.