Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sendi frá sér yfirlýsingu eftir tveggja vikna vinnu nefndarinnar hér á landi þar sem hún hefur átt fundi með fulltrúum stjórnvalda Seðlabanka Íslands, aðilum á vinnumarkaði og fulltrúum einkageirans. Hægt er að lesa lauslega þýðingu á yfirlýsingu sendinefndarinnar hér .

Í yfirlýsingu sendinefndarinnar segir meðal annars: „Vegna eftirspurnarþrýstings ættu stjórnvöld að herða fjármálastefnu hins opinbera í ár en á komandi árum gæti svigrúm skapast til aukinna opinberra umsvifa á sviði innviða, heilsuþjónustu og menntunar.“

Farið er yfir víðan völl í athugasemdum sendinefndarinnar. Hún varar meðal annars við því að aukið fjármagnsflæði í kjölfar losunar hafta hafi í för með sér áhættu jafnt sem tækifæri. „Sveiflur munu aukast. Sér í lagi mun bankastarfsemi breytast og rólyndi markaðarins snúast í harða samkeppni. Þetta gæti skapað kerfisáhættu og reynt á fjármálastöðugleika. Nýlegur samningur um sölu á hlutdeild í banka til fjögurra erlendra fjárfesta sem munu að líkindum sækjast eftir háum arðgreiðslum, sölu eigna og endurskipulagningu er dæmi um þau öfl sem munu knýja samkeppni,“ segir þar.

Einnig er tekið fram í yfirlýsingunni að mikilvægt sé að marka stefnu sem tryggir það að bankarnir verði í höndum traustra eigenda og að það þurfi að sýna þolinmæði við einkavæðingu hlutar ríkisins í ríkisbönkunum tveimur, með áherslu það að finna íhaldssama kaupendur, sem hafa langtímahollustu við Ísland.

„Í öllu falli ættu gæði nýrra eigenda að hafa forgang umfram hraða viðskiptanna eða verð. Nýleg kaup á eina einkarekna bankanum meðal þeirra stærstu mun reyna á FME. Frá sjónarhóli fjármálastöðugleika og hlutleysis er nauðsynlegt að framkvæmt verði ítarlegt, nákvæmt og sanngjarnt “fit-and-proper” hæfnismat,“ segir í yfirlýsingunni.

Sendinefnd AGS bendir jafnframt á að vöxtur íbúðalána sé enn hóflegur, en sé að aukast. Að mati nefndarinnar kallar það á aðgætni. „Þjóðhagsvarúðartækjum skal beita eftir þörfum, þ.á.m. nýjum tækjum er takmarka lánveitingar í erlendri mynt til óvarinna aðila og mögulega banna lánveitingar lífeyrissjóða. Eftirspurn á íbúðamarkaði gæti áfram aukist umfram nýbyggingar og þrýst húsnæðisverði upp á við. Ef hækkandi framfærslukostnaður fælir erlent vinnuafl frá gæti vinnumarkaðurinn ofhitnað. Frekari háar launahækkanir gætu aukið enn á innlendan eftirspurnarþrýsting,“ er tekið fram.