*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Erlent 30. ágúst 2018 10:22

AGS endurskoðar aðstoð til Argentínu

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun endurskoða tímatöflu björgunarpakka Argentínu eftir að pesóinn hrundi um 8% í gær.

Ritstjórn
Christine Lagarde er framkvæmdastjóri alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur samþykkt að endurskoða skilmála 50 milljarð dollara, um 5340 milljarð króna, björgunarpakka Argentínu, eftir að Argentínski Pesóinn féll um tæp 8% í gær og náði metlægð. Financial Times segir frá.

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri sjóðsins, sagði sjóðinn myndu „endurskoða tímatöflu fjárhagsáætlunarinnar“ eftir að Mauricio Macri, forseti Argentínu, biðlaði opinberlega til sjóðsins að flýta útgreiðslu fjárins. Fyrsta útgreiðslan, sem nam 15 milljörðum dollara, átti sér stað í júní.

Í ávarpi til þjóðarinnar á YouTube sagðist Macri hafa óskað eftir „allri þeirri aðstoð sem ætti að þurfa“ til að tryggja fjármögnun landsins fyrir árið 2019.

Pesóinn hefur ekki fallið jafn mikið á einum degi í 3 ár, og stendur nú í tæpum 34 pesóum á dollar.

Lagarde sagðist hafa rætt við Macri og ítrekaði stuðning sinn við viðleitni hans til að ná tökum á fjármálum ríkisins.