ESA hefur efasemdir um að væntar tekjur af orkusölu til PCC á Bakka samkvæmt orkusölusamningi, sem undirritaður var í mars, séu nægar miðað við áætlaðan kostnað við Þeistareykjavirkjun. Til stendur að reisa 45 megawatta virkjun til að sjá PCC fyrir  orku. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef ESA .

„Þá telur ESA miðað við fyrirliggjandi gögn vafa geta leikið á því hvort nærri 5 milljarða króna fjárfesting, sem nauðsynleg er til að tengja verksmiðju PCC og virkjunina við flutningskerf Landsnets, kunni að fela í sér ívilnun til handa PCC sem fjármöguð er af auknum kostnaði þeirra notenda sem fyrir eru," segir í tilkyningunni.

ESA er því skylt að hefja formlega rannsókn. Miðar rannsóknin að því að upplýsa þessi atriði en á þessu stigi hefur engin endanleg ákvörðun verið tekin í málinu."

Á vef ESA er vitnað í Oda Helen Sletnes, forseta ESA og segir hún: „Þegar við erum í vafa, eigum við þann kost einan að hefja formlega rannsókn á máli, til þess að skera úr um hvort í raun sé um ríkisaðstoð að ræða. Ákvörðunin nú er ekki endanleg, heldur gefur rannsóknin íslenskum yfirvöldum færi á að setja fram gögn til stuðnings því að ekki sé um ríkisaðstoð að ræða."

Á vef ESA segir enn fremur að íslenskum yfirvöldum, sem og þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta, verði gefinn kostur á að senda inn athugasemdir við bráðabirgðaákvörðun ESA áður en endanleg ákvörðun verði tekin.

Engin áhrif á fyrri ákvarðanir

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur þegar brugðist við þessum tíðindum. Í tilkynningu á vef ráðuneytisins segir: „Ákvörðun ESA kemur stjórnvöldum í opna skjöldu þar sem ekki höfðu borist vísbendingar um að ástæða væri til að hefja slíka rannsókn."

Í tilkynningu ráðuneytisins er tekið fram að í ákvörðun ESA felist ekki afstaða stofnunarinnar „ til þess hvort um ólögmætan ríkisstyrk kunni að vera að ræða eða ekki, heldur eingöngu að stofnunin telur ástæður til að kanna það nánar með því að hefja formlega rannsókn á efni þessara tveggja samninga." Hér er annars vegar vísað í samning Landsvirkjunar við PCC og hins vegar Landsnets við PCC.

„ESA hefur fyrr á árinu samþykkt fjárfestingarsamning milli PCC og íslenska ríkisins, vegna verkefnisins að Bakka, sem og lög nr. 41/2013 um heimild ríkissjóðs til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi á Bakka," segir í tilkynningu ráðuneytisins.

„Ákvörðun ESA í dag hefur engin áhrif á þessar fyrri ákvarðanir ESA. Í framhaldi af ákvörðun ESA í dag gefst aðilum máls, og þriðju aðilum, færi á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við ESA."