Ekki enn liggur fyrir hvort lífeyrissjóður verslunarmanna, stærsti hluthafi Icelandair, muni taka þátt í komandi hlutafjárútboði Icelandair. Útboðið hefst 16. september næstkomandi. „Það er engin ákvörðun fyrirliggjandi,“ segir Þórhallur Jósepsson, upplýsingafulltrúi sjóðsins í samtali við Morgunblaðið.

Sjá einnig: Sjóðir geta skráð sig fyrir áskrift

„Menn eru enn að vinna heimavinnuna sína. Þetta mál er þess eðlis að það verður ekkert gert nema stjórn sjóðsins komi að ákvarðanatökunni. Það er ekki hægt að ákveða neitt fyrr en um það leyti sem útboðið hefst, og ákvörðun verður þá tekin eftir ítarlegar athuganir á málinu,“ segir Þórhallur enn fremur.

Aðalbjörn Sigurðsson, upplýsingafulltrúi lífeyrissjóðsins Gildis, sagði einnig að engin ákvörðun lægi fyrir en að stjórnin muni funda í næstu viku. LIVE á 11,8% af hlutafé Icelandair og Gildi er þriðji stærsti hluthafinn með um 7,2% hlut. Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Par Capital er næst stærsti hluthafi félagsins með 10,49% hlut en félagið mun að öllu óbreyttu ekki taka þátt í útboðinu.

Sjá einnig: FME vilja mat á fjárfestum í Icelandair