„Þetta er allt í strandi hjá okkur. Nú er sáttasemjara að meta hvenær næsti fundur verður boðaður. Eins og staðan er núna er allt stopp og enginn fundur boðaður,“ segir Páll Halldórsson, formaður samninganefndar Bandalags háskólamanna, í samtali við Morgunblaðið .

Þar segir Páll að sú vonarglæta sem vaknaði fyrir um viku síðan, að samningaviðræður væru hafnar, hafi að engu orðið. Það sé deginum ljósara að enginn samningsvilji sé hjá ríkinu.

„Það er frekar þungt yfir mönnum, þá aðallega viðsemjendum okkar,“ segir Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, í samtali við Morgunblaðið. Segir hann að sínum augum líti hver á silfrið, en ljóst sé að menn séu ekki bjartsýnir á að kjaradeilan leysist í bráð.