*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Fólk 23. júlí 2017 18:02

Alltaf í boltanum

Bjarni Guðjónsson, fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu og aðalþjálfari KR og Fram, hefur gengið til liðs við fyrirtækjaráðgjöf VÍS.

Ritstjórn
Eva Björk Ægisdóttir

Bjarni Guðjónsson er nafn sem margir þekkja. Hann var atvinnumaður í knattspyrnu frá 1997 til 2006 og lék með liðum í bæði Englandi og Belgíu. Eftir að hann kom heim lék hann með ÍA og KR en lagði skóna á hilluna árið 2013 eftir að hafa orðið Íslandsmeistari í fjórða sinn.

Frá því að Bjarni kom heim úr atvinnumennsku hefur hann starfað sem verslunarstjóri hjá Ellingsen og sem aðalþjálfari bæði KR og Fram í úrvalsdeild karla. Hann starfaði síðast sem sölustjóri sjávarútvegsteymis hjá Odda en 1. ágúst næstkomandi mun hann taka við starfi viðskiptastjóra með áherslu á sjávarútveg í fyrirtækjaráðgjöf VÍS.

„Starfið felst í viðskiptastjórnun á sjávarútvegsviðskiptavinum VÍS og snýr aðallega að því að efla tengslin við núverandi viðskiptavini og sækja enn frekar inn á þennan markað.“ Skömmu eftir að Bjarni kom heim úr atvinnumennsku ákvað hann að setjast á skólabekk og útskrifaðist árið 2010 með gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

„Ég hef alltaf verið viðskiptaþenkjandi frekar en eitthvað annað. Eftir að hafa skoðað aðrar greinar fannst mér viðskiptafræðin mest spennandi og sé ekki eftir því vali í dag.“

Bjarni er giftur Önnu Maríu Gísladóttur og eru þau búsett á Seltjarnarnesi. Þau eiga saman þrjú börn sem eru á aldrinum 5 til 15 ára. Fyrir utan hefðbundinn vinnutíma segir Bjarni að mestur tími fari í að vera með fjölskyldunni en fótboltinn er samt sem áður fyrirferðarmikill. Hann er aðstoðarþjálfari Víkings í úrvalsdeild karla auk þess sem öll börnin spila fótbolta.

„Það fer þó nokkur tími í að fylgja börnunum á hin ýmsu mót. Við erum búinn að fara á Norðurálsmótið og N1-mótið og svo er Rey Cup fram undan. Við höfum reynt að fara í útilegur en það verður alltaf erfiðara og erfiðara því helgarnar eru undirlagðar af fótbolta,“ segir Bjarni.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.