Bandaríska lyfjafyrirtækið Alvogen Group hyggst byggja upp hluta starfsemi sinnar á Íslandi á næstu misserum.

Í tilkynningu segir að undir forystu Róberts Wessman, starfandi stjórnarformanns félagsins, hafi Alvogen sett sér markmið um að komast í hóp tíu stærstu samheitalyfjafyrirtækja heims innan fimm ára. Samhliða þeirri uppbyggingu er fyrirhugað að staðsetja hluta af stoðsviðum félagsins á Íslandi.

Stoðsviðin hafa það hlutverk að styðja við vöxt félagsins á erlendum mörkuðum og munu m.a. bera ábyrgð á stefnumótun og stjórnun verkefna sem snúa að samþættingu þróunar- og framleiðslueininga, skoðun fjárfestingatækifæra og uppbyggingu vörumerkis Alvogen.  Þá verður ýmis sérfræðiþjónusta, sem snýr að fyrrnefndum verkefnum, keypt hér á landi.

Nú þegar hafa nokkrir lykilstjórnendur verið ráðnir til félagsins á Íslandi og erlendis og mun þeim fjölga á næstu misserum segir í tilkynningu.

Íslendingar ráðnir til starfa

Fjalar Kristjánsson hefur verið ráðinn Technical Director hjá Alvogen og mun m.a. taka þátt í uppbyggingu þróunarstarfs félagsins.  Hann lauk doktorsprófi í lyfjafræði frá University of Kansas árið 1987 og hefur um árabil leitt uppbyggingu lyfjaverksmiðja og lyfjaprófanna víða um heim. Fjalar starfaði áður hjá lyfjafyrirtækjunum Delta og síðar Actavis á Möltu, Indlandi og í Búlgaríu.

Bjartur Login Ye Shen hefur tekið við starfi Director of Business Analysis & Budgeting hjá Alvogen og mun vinna við fjármálagreiningar og gerð viðskipta- og fjárhagsáætlana.  Hann hefur lokið meistaranámi á sviði fjármála og hagfræði, auk þess að hafa B.A. gráðu í ensku. Bjartur hefur umfangsmikla reynslu og starfaði áður sem lánastjóri hjá alþjóðasviði Glitnis og nú síðast sem sérfræðingur hjá Salt investments. Í störfum sínum hefur hann aflað sér góðrar þekkingar á mörkuðum í Asíu og þá sérstaklega Kína og Indlands.

Anna Kristín Ásbjörnsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður stjórnarformanns Alvogen. Hún hefur áralanga starfsreynslu af verkefnastjórnun og m.a. starfað hjá Glitni og stýrt eigin atvinnurekstri í Frakklandi í 10 ár.

Áður hefur verið tilkynnt um stjórnarsetu Árna Harðarsonar og Svöfu Grönfeldt hjá Alvogen.

Róbert Wessman, starfandi stjórnarformaður Alvogen er áhugasamur um uppbyggingu félagsins á Íslandi.

„Mikil sérfræðiþekking og reynsla er til staðar hér á landi, sem við viljum nýta við uppbyggingu Alvogen á heimsvísu. Landfræðileg lega landsins er einnig ákjósanleg. Við höfum sett okkur framsækin markmið, sem munu fyrst og fremst byggja á öflugu innra starfi og vonumst við til að getað skapað fleiri störf hér á landi á næstu misserum“, segir Róbert í tilkynningu.

Um Alvogen

Alvogen er bandarískt samheitalyfjafyrirtæki með yfir 100 ára rekstrarsögu og sérhæfir sig í þróun og framleiðslu samheitalyfja, sem eru flókin í þróun og framleiðslu. Alvogen hefur fjölda samheitalyfja í þróun og árlegt söluverðmæti þeirra frumlyfja á markaði í dag er um 17 milljarðar bandaríkjadala, sem endurspeglar vaxtamöguleika og styrk þróunarstarfs félagsins.

Í dag starfa um 400 starfsmenn hjá Alvogen í Bandaríkjunum og væntanlegar tekjur félagsins á árinu 2009 eru um fimm milljarðar króna.  Alvogen starfrækir fullkomna lyfjaverksmiðju í New York fylki, sem getur framleitt um átta milljarða taflna á ári og hefur verksmiðjan getið af sér gott orð fyrir hágæða framleiðslu.