Þann 19. mars næstkomandi mun Apple, verðmætasta fyrirtæki Bandaríkjanna, verða hluti af Dow Jones hlutabréfavísitölunni og kemur inn í vísitöluna í stað AT&T, sem hefur verið í vísitölunni frá árinu 1916. Kemur þetta fram í frétt BBC.

Þrátt fyrir að vera eins verðmætt og mikilvægt fyrirtæki og raun ber vitni hefur Apple ekki verið í vísitölunni vegna þess að hátt gengi hlutabréfa þess hefði bjagað vísitöluna.

Tvennt hefur gerst til að gera inntöku Apple mögulega. Í fyrsta lagi er það fjórföldun hlutabréfa VISA, sem er í sama geira og Apple samkvæmt skilgreiningu Dow Jones, en þessi fjölgun hlutanna tekur gildi þann 18. mars. Í júní í fyrra varð sjöföldun á hlutabréfum í Apple, en þessi fjölgun hluta í félögunum tveimur leiðir eðlilega til þess að virði hvers hlutar lækkar.

Dow Jones vísitalan er reiknuð út með þeim hætti að gengi hlutabréfa þeirra 30 fyrirtækja sem í henni eru er lagt saman og deilt er í samtöluna með tölu sem kölluð er Dow deilirinn (e. Dow Divisor).