Rafholt, einn stærsti atvinnurekandi í rafverktöku á Íslandi, ber af þegar horft er til miðgildis arðsemi eigin fjár á síðastliðnum fimm árum í byggingastarfsemi- og mannvirkjagerð samkvæmt samantekt Frjálsrar verslunar og Creditinfo. Miðgildi arðsemi eigin fjár fyrirtækisins á tímabilinu nam rétt rúmlega 61%.

Frjáls verslun hefur tekið saman arðsömustu fyritækin í byggingageiranum sem og sex atvinnugreinum til viðbótar. Úttektin birtist í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar en alls nær úttektin til um tvö hundruð fyrirtækja.

Í úttektinni er bæði að finna samantekt á hæstu arðsemi út frá miðgildi arðsemi árin 2016 til 2020 eftir atvinnugreinum sem og miðgildi rekstrarhagnaðar fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) í hlutfalli við rekstrartekjur félaganna.

Loftorka Reykjavík, eitt elsta verktakafyrirtæki landsins, kemur þar á eftir með tæplega 37% arðsemi eigin fjár á umræddu tímabili þegar kemur að byggingastarfsemi- og mannvirkjagerð.

Byggingarverktakinn GG Verk vermir þriðja sæti listans með tæplega 32% arðsemi eigin fjár á síðastliðnum fimm árum. Fast á hæla GG Verks fylgir rafverktakinn Rafeyri með rúmlega 31% arðsemi eigin fjár á tímabilinu.

Skilyrði fyrir veru á topplistanum:

  • Hafi skilað inn ársreikningi fyrir öll ár 2016 til 2020.
  • Fyrirtæki eru í virkri starfsemi skv. mati Creditinfo.
  • Jákvætt eigið fé á hverju ári 2016-2020.
  • Rekstrartekjur yfir einum milljarði á hverju ári 2016-2020.
  • Eigið fé yfir 100 milljónum króna árið 2020.
  • Á lista yfir minni fyrirtæki eru skilyrði um rekstrartekjur á milli 100 og 1.000 milljónir króna og eigið fé yfir 50 milljónum króna árið 2020.
  • Önnur skilyrði sem Frjáls verslun og Creditinfo setja.

Nánar er fjallað um arðbærustu fyrirtæki landsins í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .