*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 20. mars 2020 15:16

Arion banki lækkar síðastur vexti

Breytilegir vextir íbúðalána Arion lækka um minna en hinna viðskiptabankanna, en verða næst lægstir eftir gildistöku allra.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Arion banki hefur tilkynnt um lækkun vaxta hjá sér en hinir viðskiptabankarnir tveir höfðu þegar gert það í kjölfar annarrar stýrivaxtalækkunar Seðlabanka Íslands á einni viku.

Arion banki lækkar bæði inn- og útlánavexti sína strax frá og með mánudeginum 23. mars næstkomandi, líkt og Landsbankinn, en seinni vaxtalækkun Íslandsbanka tekur ekki gildi fyrr en um mánaðamótin.

Þannig lækkar Arion banki breytilegra íbúðalánavexti sína nú um það sama og Íslandsbanki, eða um 0,30 prósentustig, eftir 0,5 prósentustiga lækkun Seðlabanka Íslands á miðvikudaginn.

Eins og Viðskiptablaðið sagði hins vegar frá í morgun lækkaði Landsbankinn þessa sömu vexti um jafnmikið, eða 0,40 punkta og eftir stýrivaxtalækkunina í síðustu viku.

Þar með er heildarlækkun Arion banka eftir þessar tvær vikur jafnmikil og Landsbankans, eða um 0,80 prósentustig, og 5 punktum meira en Íslandsbanka, sem hyggst lækka í heildina um 0,75 prósentustig eftir að báðar lækkanirnar hafa tekið gildi um rúmri viku eftir að það gerist hjá hinum bönkunum.

Þannig verða breytilegir vextir óverðtryggðra íbúðalána sem hér segir hjá viðskiptabönkunum þremur eftir gildistökuna:

  1. 4,20 - Íslandsbanki (lækka úr 4,50 um mánaðarmótin)
  2. 4,19 - Arion banki (lækka úr 4,59 á mánudaginn)
  3. 4,10% - Landsbankinn (lækka úr 4,50 á mánudaginn)

Þannig munu inn- og útlánavextir Arion banka breytast þann 23. mars næstkomandi:

  • Óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir lækka um 0,30% og verða 4,19%
  • Almennir óverðtryggðir kjörvextir lækka um 0,30% og almennir verðtryggðir kjörvextir lækka um 0,10%
  • Yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga haldast ýmist óbreyttir eða lækka um 0,30% - 0,50%
  • Vextir bílalána lækka um 0,10% - 0,50%
  • Breytilegir innlánavextir bankans munu í mörgum tilfellum haldast óbreyttir þrátt fyrir stýrivaxtalækkun en þó munu vextir nokkurra innlánareikninga lækka um 0,05% - 0,50%
  • Vextir íbúðalána með föstum vöxtum eru óbreyttir