*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Innlent 20. febrúar 2020 11:01

Arion banki úr bláu í grænt

Arion banki hyggst lána meira til umhverfisvænni verkefna og krefur birgja um aðgerðir í umhverfismálum.

Ingvar Haraldsson
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Aðsend mynd

Arion banki ætlar að krefja birgja sína um að þeir grípi til aðgerða umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi. Þá hyggst bankinn lána í meira mæli en áður til grænar innviðauppbyggingar og verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun. Þetta kemur fram í ávarpi Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka í ársskýrslu bankans. 

„Á árinu 2020 ætlum við að meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og setja okkur markmið í þeim efnum. Við munum í auknum mæli beina sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu. Að auki munum við í mati á okkar birgjum gera þá kröfu til þeirra að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi,“ segir Benedikt í ávarpinu.

Benedikt bendir á að stjórn bankans hafi í desember samþykkt nýja umhverfis- og loftslagsstefnu og markmið fyrir næstu ár. „Í stefnunni felst að við horfumst í augu við að loftslagsbreytingar eru ein helsta áskorun samtímans og að fjármálafyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í að sporna gegn þeim með lánveitingum sínum og fjárfestingum. Við viljum leggja okkar af mörkum til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og erlendum loftslagssáttmálum,“ segir Benedikt.

Benedikt segir starfsmenn bankans gera sér grein fyrir því það sé engin ein einföld lausn á loftlagsvánni. „Það er hins vegar ljóst að ráðast þarf í miklar fjárfestingar í grænni innviðauppbyggingu og slíkar fjárfestingar eins og aðrar verða að skila þeim sem leggja til fjármagnið ásættanlegum arði. Samvinna stjórnvalda, fyrirtækja, háskóla, frumkvöðla og fjármálafyrirtækja um heim allan er sá grundvöllur sem byggja þarf á. Á árinu undirgekkst bankinn meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi ásamt um 130 öðrum bönkum frá ýmsum löndum. Meginreglurnar fela í sér ríka áherslu á loftslagsmál og grundvallast á virku samstarfi banka sem við bindum miklar vonir við,“ segir hann.

Bankarnir beita sér í samfélags- og umhverfismálum

Bankarnir hafa á síðustu misserum beitt sér í meira mæli á sviði umhverfis- og samfélagsmála. Mikla athygli vakti í október þegar Íslandsbanki gaf út að bankinn hygðist ekki ætla að kaupa auglýsingar af fjölmiðlum sem byðu „upp á afgerandi kynjahalla,“ og vísaði þar til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Landsbankinn hefur einnig fléttað heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í sína starfsemi.

Sjá einnig: Ársfjórðungshagnaður rangt viðmið

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, sagði í viðtali við 300 stærstu, sem Frjáls verslun gaf út í nóvember, að bankinn horfði mikið til umhverfis- og samfélagssjónarmiða og góðra stjórnarhátta í sínum rekstri. „Ég var svo heppin að fá nýlega boð á fund hjá Sameinuðu þjóðunum um ábyrga bankastarfsemi. Þar fannst mér mjög ánægjulegt hversu mörg fjármálafyrirtæki ræddu um að það væri rangt viðmið að horfa eingöngu til árangurs í hverjum ársfjórðungi. Þú átt að skila ávinningi til miklu lengri tíma fyrir fyrirtækið, eigendur, viðskiptavini, starfsfólk og samfélagið,“ sagði Lilja Björk þá.