Árni Heiðar Gylfason hefur verið ráðinn yfirverkstjóri hjá Optimar KAPP. Árni Heiðar hefur yfirumsjón með véla- og renniverkstæði fyrirtækisins.

Árni Heiðar starfaði áður sem vélstjóri hjá Eskju í Hafnarfirði. Hann starfaði einnig hjá Íslenska Gámafélaginu og var verkstjóri í hafnargerð fyrirtækisins. Þá var Árni Heiðar með eigin rekstur um allnokkurt skeið og sá um viðhald fyrir bíla, vélar ofl.

Optimar KAPP framleiðir, selur og þjónustar kæli-, frysti- og vinnslubúnað frá Optimar Stetter og Hayvard MMC í Noregi sem og ísþykknivélar og tengd kerfi. Fyrirtækið framleiðir m.a. hinar þekktu OPTIM-ICE ísþykknivélar sem eru mjög vinsælar á alþjóðamarkaði. Fyrirtækið selur líka Carrier kæli- og frystivélar á bíla og vörukassa ásamt því að vera umboðsaðili Schmitz Cargobull hér á landi.

Í tilkynningu frá Optimar Kapp segir Árni Heiðar:

,,Mér líst mjög vel á að koma til starfa hjá Optimar KAPP. Fyrirtækið starfar á spennandi markaði sem tengist sjávarútvegi bæði til sjós og lands ásamt því að sinna margs konar vélaþjónustu fyrir mörg bíla- og vélaumboð. Við erum öflugir á sviði véla- og verkstæðisþjónustu sem og í sölu á kæli- og frystikerfum. Við rekum mjög fullkomið véla-, renni-, og kæliverkstæði í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Garðabæ. Véla- og verkstæðishlutinn er afar mikilvægur því það er lykilatriði að þjónusta viðskiptavinina eins vel og mögulegt er.”