Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna í Reykjavík hefur ákveðið að gefa kost á sér í forvali VG í Reykjavík, sem fram fer þann 7. mars nk.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Árna Þór.

Þar kemur fram að hann hefur setið á þingi síðan 2007 en skipaði þá annað sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður.

„Ég mun sækjast eftir því að skipa áfram 2. sætið í öðru hvoru Reykjavíkur¬kjördæmanna,“ segir Árni Þór í tilkynningunni.

„Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur nú tekið að sér brýnt og vandasamt verkefni á miklum tímamótum í íslensku samfélagi.  Þátttaka hreyfingarinnar í ríkisstjórn skiptir sköpum við endurmótun samfélagsins á nýjum grunni, samstöðu, jöfnuðar og réttlætis,“ segir Árni Þór.

„Það er sannfæring mín að reynsla af fjölþættum störfum í stjórnmálum og félagsstarfi undanfarin ár geti nýst vel í því endurreisnarstarfi sem framundan er.  Þess vegna sækist ég eftir að sinna áfram trúnaðarstörfum fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.“

Árni Þór er kvæntur Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur, ónæmisfræðingi og eiga þau þrjú börn: Sigurð Kára, Arnbjörgu Soffíu og Ragnar Auðun.

Þá á Árni sæti í fjórum nefndum Alþingis: utanríkismálanefnd (formaður), efnahags- og skattanefnd (varaformaður), samgöngunefnd (varaformaður) og allsherjarnefnd.