Formenn stjórnarflokkanna hafa ekki svarað beiðni formanna stjórnarandstöðuflokkanna um fund sem óskað var eftir fyrir tveimur vikum síðan. Hins vegar hefur þingmönnum verið kynntur matseðill í mötuneyti Alþingis þar sem sumarþing muni hefjast á fimmtudaginn.

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Þetta kemur fram á Facebook síðu Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar. Árni Páll segir að hann og aðrir formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafi óskað eftir fundi með formönnum stjórnarflokkanna fyrir tveimur vikum síðan. Þar vísar hann til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

„Formlega var sú beiðni ítrekuð fyrir rúmri viku og margítrekuð alla síðustu viku,“ segir Árni Páll á síðu sinni.

„Engin svör frá forsætisráðherra. Við höfum ekkert heyrt um hvað til standi að gera á sumarþingi eða hvenær það verði sett. Eftir er líka að finna út hvað býr í loforðum nýrrar ríkisstjórnar um aukið samráð við stjórnarandstöðu.“

Árni Páll segir að þingmenn hafi hins vegar fengið sendan matseðilinn í þingmötuneytinu í gærkvöldi fyrir þessa viku.

„Þar kemur fram að þing verði sett á fimmtudag. Það er skrítinn framgangsmáti að ný ríkisstjórnarforysta kjósi að boða þingsetningu í matseðli þingsins, frekar en að tala við stjórnarandstöðuna,“ segir Árni Páll að lokum.