*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Fólk 28. ágúst 2019 10:48

Arpit Kaushik og Åsa Bengter til Meniga

Arpit Kaushik tekur við stöðu rekstrarstjóra og Åsa Bengter verður framkvæmdastjóri í Svíþjóð.

Ritstjórn
Gígja Einarsdóttir

Meniga hefur ráðið tvo nýja starfsmenn, þau Arpit Kaushik sem tekur við stöðu rekstrarstjóra og Åsa Bengter sem tekur við sem framkvæmdastjóri í Svíþjóð. Meniga greinir frá þessu í fréttatilkynningu.     

Arpit Kaushik tekur við nýrri stöðu rekstrarstjóra (e. Chief Operating Officer) hjá Meniga. Hann mun starfa á skrifstofu Meniga í London og styðja við áframhaldandi stækkun félagsins á alþjóðavettvangi.

Arpit hefur mikla reynslu af því að starfa náið með alþjóðlegum stórfyrirtækjum og bönkum við innleiðslu á stafrænum lausnum. Undanfarin áratug hefur Arpit starfað í tæknigeiranum með farsælum hætti. Hann hefur  meðal annars verið háttsettur stjórnandi hjá fyrirtækjum á borð við DXC Technology, Wipro og Oracle.

"Ég er mjög hrifinn af því hvernig Meniga hefur umbreytt því hvernig bankar þjónusta viðskiptavini sína. Stórir bankar eru að kveikja á því að þeir þurfa að vinna með sérhæfðum fyrirtækjum á borð Meniga til að tryggja að stór og mikilvæg stafræn umbreytingaverkefni heppnist. Það er tilhlökkunarefni að vinna með Georgi forstjóra og öðrum stjórnendum við að móta framtíðarstefnu fyrirtækisins og hjálpa fólki með fjármálin sín," er haft eftir Arpit í tilkynningunni.

Åsa Bengter hefur tekið við starfi sem framkvæmdastjóri fríðindakerfa Meniga og sem framkvæmdastjóri hjá Meniga í Svíþjóð. Þá tekur hún einnig sæti í framkvæmdastjórn Meniga.

Åsa Bengter hefur yfir 15 ára reynslu á sviði stafrænna lausna og tekur við stöðunni af Aage Reerslev, fyrrum forstjóra Wrapp, sem tekur sæti í ráðgjafaráði Meniga. Meniga keypti fyrr á árinu sænska fyrirtækið Wrapp.

"Ég er mjög spennt fyrir því að fá tækifæri til þess að leiða sókn Meniga á sviði endurgreiðslutilboða. Neytendur vilja í auknum mæli að gögnin þeirra séu nýtt til þess að skapa aukið virði og persónulegri notendaupplifun. Endurgreiðslutilboð hjálpa fólki að auka kaupmátt sinn með snjallari hætti og ég tel að þetta sé ein mest spennandi þróunin í stafrænni bankaþjónustu um þessar mundir", segir Åsa Bengter nýr framkvæmdastjóri fríðindakerfa Meniga í tilkynningunni.

Stikkorð: Meniga