Forstjóri örflöguframleiðandans Broadcom, Hock Tan, fékk í fyrra launagreiðslu upp á 161 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 22 milljörðum króna á gengi dagsins.

Tan óskaði þó eftir því að fá launin greidd í hlutabréfum en virði bréfanna hefur hækkað töluvert síðan þá.

Markaðsvirði þeirra er nú um 1,3 milljarðar bandaríkjadala eða sem nemur 179 milljörðum íslenskra króna.

Heildarlaun forstjóra í Bandaríkjunum hjá 187 stærstu fyrirtækjum sem eru á skrá S&P 500 hækkuðu gríðarlega árið 2023 samkvæmt fréttamiðlinum Wall Street Journal. Meðallaun þeirra voru 15,6 milljónir dala á ári, samanborið við 14,1 milljón dala árið 2022.

S&P 500-vísitalan hækkaði einnig um 24% á síðasta ári sem gerði fyrirtækjunum kleift að greiða út hærri afborganir til forstjóra en áður.

Samkvæmt WSJ fengu 130 forstjórar hærri launagreiðslu árið 2023 miðað við árið á undan. 55 forstjórar fengu hins vegar minna greitt.