Landsvirkjun hefur verið tilnefnd til verðlaunanna Digital Communication Awards fyrir ársskýrslu fyrirtækisins. Þetta er alþjóðleg keppni sem verðlaunar það besta úr heimi rafrænnar miðlunar og samskipta. Verðlaun eru veitt í 38 flokkum til þeirra sem þykja hafa skarað hafa fram úr. Keppnin fer nú fram í fjórða sinn. Rafrænar árskýrslur fjögurra annarra stórfyrirtækja eru sömuleiðis tilnefndar. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt fyrirtæki er tilnefnt. Ársskýrslan var unnin í samstarfi við Skapalón og Jónsson & Le'macks.

Hin fyrirtækin sem eru tilnefnd eru efnavöru og málningaframleiðandinn Akzo Nobel (með 50.000 starfsmenn í 80 löndum), bifreiðaframleiðandinn Fiat (framleiðandi Ferrari, Maserati, Alfa Romeo og Fiat), breska olíu- og gasfélagið BG Group (starfandi í 25 löndum) og svissneski bankinn Basellandschaftliche Kantonalbank.

Í dómnefnd sitja yfir 30 sérfræðingar og háskólamenn, þar af 13 prófessorar og kennarar í almannatengslum og samskiptum við virta háskóla í Evrópu.

„Tilnefningin er mikil viðurkenning fyrir Landsvirkjun og viðleitni okkar til að að auka skilning og sýnileika á stefnu og starfsemi fyrirtækisins með auknu gegnsæi í rekstrinum, opnum samskiptum og virkri upplýsingamiðlun til hagsmunaaðila og almennings,” segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.