Megn óánægja er með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar fyrir næsta ár, samskiptaleysig og aðrar boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar meðal aðildarfélaga ASÍ. Á morgun verður haldinn miðstjórnarfundur ASÍ. Á fundinum verður meðal annars rætt hvort að ASÍ slíti samstarfi við ríkisstjórnina í ljósi þess að ekkert samráð hefur verið haft við félagið í tengslum við fjárlagafrumvarpið eða önnur mál samkvæmt forsvarsmönnum þess.

„Það gefur augaleið að það er mjög mikil óánægja innan raða verkalýðshreyfingarinnar varðandi frumvarp til fjárlaga sem hefur verið lagt fram,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ. „Það er viðfangsefni fundarins á morgun að fara yfir það og við ætlum að leggja mat á það með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst bera niður.“ bætir hann við.

Ekkert samráð þrátt fyrir yfirlýsingar

Aðspurður hvort óánægja með fjárlagafrumvarpið hafi með samskipti við einstaka ráðherra við verkalýðhreyfinguna að gera segir Gylfi: „Það eru bara engin samskipti þrátt fyrir margítrekaðar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Þetta er bara partur af því sem við munum fara yfir og hvaða ályktanir miðstjórnin dregur af því er það sem verður fjallað um á morgun.“

Kemur þá til greina af þinni hálfu á þessu stigi að samstarfi ASÍ við ríkisstjórnina verði hætt?

„Ég ítreka að það er viðfangsefni fundarins á morgun að fjalla um þetta,“ segir Gylfi.

Bótaréttur skertur að ASÍ forspurðum

Signý Jóhannesdóttir, varaforseti miðstjórnar ASÍ og formaður Stéttarfélags Vesturlands, tekur undir orð Gylfa. „Ég er búin að koma að málefnum atvinnulausra mjög lengi og mér skilst að það hafi aldrei gerst að lögum um atvinnuleysisbætur eða réttindi atvinnulausra hafi verið breytt og réttindi skert án þess að það væri rætt við Alþýðusambandið,“ segir Signý.

„Það er almennt með þessa ríkisstjórn að það er mikið talað um samráð en það fara ekki saman orð og athafnir,“ bætir hún við.

Kemur til greina af ykkar hálfu að slíta samstarfi við ríkisstjórn eða einfaldlega ganga út frá því að það verði ekkert frekara samtal ykkar á milli?

„Ég get ekki sagt til um það en við ætlum að ræða þetta á morgun,“ segir Signý Jóhannesdóttir