Forsvarsmenn Skipta, móðurfélags Símans,  hafa farið þess á leit við íslensk stjórnvöld að skráningu félagsins verði frestað fram yfir áramót.  Í tilkynningu Skipta, sem send var í kjölfar umfjöllunar Viðskiptablaðsins um málið í dag, segir að ástæðuna megi rekja til þátttöku Skipta í söluferli á hlut í slóvenska símanum, Telekom Slovenije.  Kauphöllin hafi lýst yfir efasemdum um skráningu í ljósi óvissu um framtíð félagsins.

Samkvæmt skilmálum í kaupsamningi Skipta hf. við íslenska ríkið frá 5. ágúst 2005 skal bjóða til sölu ekki minna en 30% af þeim hlut sem var andlag kaupsamningsins fyrir árslok 2007.  Fjármálaráðherra þarf að samþykkja breytingar á þessum skilmálum.

Í fréttatilkynningu frá Skiptum segir að undirbúningur að skráningu Skipta hf. í OMX kauphöllina hafi staðið yfir að undanförnu.  "Skipti hf. er þátttakandi í söluferli á hlut í slóvenska símanum, Telekom Slovenije en til stendur að selja 49,13% hlut í félaginu í þessari umferð til kjölfestufjárfestis, sem mun í kjölfarið þurfa að gera öðrum hluthöfum í félaginu yfirtökutilboð, að undanskildu slóvenska ríkinu sem halda mun eftir 25% hlut. Samtals er því um að ræða allt að 75% hlut í Telekom Slovenije. Ekki verður ljóst fyrr en í árslok hvort af kaupum Skipta verður." segir í tilkynningunni.

Fyrir liggur, að vegna ákvæða í samkomulagi við slóvenska ríkið, er Skiptum hf. og ráðgjöfum þess óheimilt að upplýsa um hvaðeina sem varðar möguleg kaup á Telekom Slovenije þ.m.t. nánari upplýsingar úr rekstri félagsins, sem ekki hafa þegar verið gerðar opinberar.

Í fréttatilkynningunni segir að vegna þessa hafi Kauphöllin lýst efasemdum sínum um að haldið verði áfram með skráningu Skipta hf. á markað á meðan slík óvissa ríki í rekstri félagsins og framtíðarhorfum.

Skipti hf. eru þeirrar skoðunar að það sé bagalegt fyrir fjárfesta sem hyggjast leggja mat á verðmæti hlutabréfa í félaginu að ekki sé unnt að upplýsa um þær mikilvægu upplýsingar sem hér um ræðir og hafa jafn mikil áhrif á Skipti og starfsemi þess og raun ber vitni ef af kaupunum verður. Er viss hætta á að fjárfestar muni ekki fá nægjanlega glögga mynd af félaginu við þessar aðstæður.

Skipti hf. er efnislega sammála þeim sjónarmiðum sem koma fram hjá Kauphöllinni. Stjórn Skipta hefur því farið þess á leit við íslenska ríkið að skilyrði um skráningu verði rýmkuð þannig að Skipti verði skráð á markað á fyrsta ársfjórðungi 2008 enda verði þá komin niðurstaða í þetta mál segir í tilkynningunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag.