Fjártæknifyrirtækið SalesCloud hefur tryggt sér yfir 500 milljóna króna fjármögnun frá SaltPay og hópi íslenskra fjárfesta. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„SalesCloud auðveldar litlum og meðalstórum fyrirtækjum að auka sölu í verslunum og á netinu með öflugu sölukerfi í skýinu með innbyggðum lausnum á borð við kassakerfi, bókanir, sjálfsafgreiðslu og fleira. Félagið hefur vaxið töluvert á síðustu árum og afgreiddi yfir 4 milljónir viðskiptavini árið 2021,“ segir í tilkynningunni.

„Ég er þakklátur fyrir það traust sem fjárfestarnir sýna okkur. Fjármagnið gerir okkur kleift að leggja enn meiri kraft í vöruþróun, eins og við Yess markaðstorgið okkar, tímabókanir og fríar borðabókanir, en á síðasta ári bókuðu yfir 160.000 manns upplifun hjá viðskiptavinum okkar. Þessum áfanga deili ég með 18 manna öflugu teymi sem stendur með mér að SalesCloud og eins viðskiptavinum okkar sem hvetja okkur óspart til að gera betur á hverjum degi. Við hlökkum til að nýta það tækifæri sem okkur gefst með þessu fjármagni til að þjónusta viðskiptavini okkar enn betur og um leið bæta upplifun neytenda,“ er haft eftir Helga Andra Jónssyni, forstjóra SalesCloud.

Þá stefni SalesCloud samhliða auknum vexti á Íslandi að því að stíga sín fyrstu skref í áttina að auknum vexti erlendis. Stakkur var ráðgjafi SalesCloud við fjármögnunina.