Bakkavör Group hefur keypt 40% hlutafjár í kínverska salatfyrirtækinu Creative Foods í samstarfi við Glitni. Kaupverð er trúnaðarmál. Í tengslum við kaupin hafa Bakkavör Asia, dótturfélag Bakkavör Group, og Glitnir stofnað nýtt félag, Bakkavör China. Bakkavör Group á 60% hlutafjár í félaginu og Glitnir 40%.

Hið nýja félag mun einbeita sér að fjárfestingum í Kína og er fjárfestingin í Creative Foods fyrsta verkefni þess. Glitnir veitti ráðgjöf og fjármagnaði kaupin og önnuðust Deloitte og Eversheds fjárhagslega og lagalega áreiðanleikakönnun.

Bakkavör China á kauprétt að eftirstandandi hlutafé í Creative Foods á föstu verði. Kaupin munu ekki hafa veruleg áhrif á afkomu og efnahag Bakkavarar. Fyrirhugaðar breytingar á skipulagi eignarhalds Creative Foods í tengslum við kaupin eru háðar samþykki kínverskra yfirvalda.

Creative Foods ræktar og framleiðir ýmiss konar salöt, eða um 250 vörutegundir í fjórum verksmiðjum og er með um 600 starfsmenn. Gert er ráð fyrir að velta yfirstandandi árs hjá Creative Foods nemi um 923 milljónum króna (13 milljónum dollara). Á meðal helstu viðskiptavina fyrirtækisins er Yum! Brands, sem er ein stærsta veitingahúsakeðja í heimi og rekur meðal annars Kentucky Fried Chicken og Pizza Hut. Aðrir viðskiptavinir eru meðal annars Wal*Mart, Carrefour, Starbucks og Burger King.