Bakkavör Group hf. hefur náð samkomulagi við Primebake Limited um kaup á dótturfélagi þess, New Primebake Limited, sem er stærsti framleiðandi á kældum brauðvörum í Bretlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

New Primebake var stofnað árið 1989 og hefur verið í góðum rekstri á undanförnum árum. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBIDTA) árið 2005 var 414 milljónir króna (3,0 milljónir punda) og veltan 4,6 milljarðar króna (33,4 milljónir punda). Heildareignir félagsins voru 814 milljónir króna (5,9 milljónir punda).

Kaupverðið, sem er trúnaðarmál, hefur að fullu verið greitt og er fjármagnað úr sjóðum félagsins. Kaupin eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda en gert er ráð fyrir niðurstöðu þeirra innan 4-8 vikna.

Eftir kaupin á New Primebake verður Bakkavör Group stærsti framleiðandi kældra brauðvara í Bretlandi. Með kaupunum eykst framboð brauðavara hjá félaginu og möguleikar til frekari vöruþróunar í vöruflokknum aukast verulega. Kaupin skapa jafnframt tækifæri til frekari hagræðingar í rekstri en töluverð samlegðartækifæri felast í kaupunum.

Helstu stjórnendur New Primebake munu starfa áfram hjá félaginu.

Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavör Group segir í tilkynningu félagsins: "New Primebake er gott fyrirtæki með góða sögu og trausta stjórnendur. Með yfirtökunni breikkum við enn frekar vöruframboð okkar en framleiðsla fyrirtækisins fellur vel að okkar vöruframboði. Yfirtakan gerir okkur kleift að auka nýtingu á núverandi framleiðslueiningum og mun jafnframt auðvelda okkur að uppfylla kröfur markaðarins um nýstárlegt og fjölbreytt vöruúrval."