Bakkavör hefur endurfjármagna hluta skulda sinna og lengt í lánum. Gjaldagar lána voru m.a. færðir fram í júní og í október árið 2016. Fram kemur á vefsíðu Bakkavarar að félagið hafi tryggt sér 150 milljóna punda lán, jafnvirði um 28 milljarða króna, með föstum 8,75% vöxtum til sjö ára og lengt í lánum upp á 130 milljarða punda. Þetta geri Bakkavör m.a. kleift að greiða niður eldri lán.

Í netmiðlinum The Grocer segir að Bakkavör hafi staðið fjárhagslega illa árið 2008 og nánast farið í þrot. Það hafi hins vegar ekki gerst. En síðan þá hafi stjórnendur félagsins unnið að því hörðum höndum að semja við kröfuhafa. Haft er eftir Ágústi Guðmundssyni, forstjóra Bakkavarar, að hann sé mjög ánægður með samningana.

Heildarskuldir Bakkavarar námu við lok þriðja ársfjórðungs á þessu ári 980 milljónum punda, jafnvirði rúmra 180 milljarða íslenskra króna.

Bakkavör er að mestu í eigu íslenskra aðila. Bakkabræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, stofnendur félagsins og stærstu hluthafar eiga  í kringum 40 prósenta hlut. Arion banki kemur á eftir með 34 prósent. Lífeyrissjóðir eiga það sem út af stendur.