Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, setur spurningamerki við vaxtalækkanir gærdagsins og segir að þær gætu haft takmörkuð áhrif á vexti til fyrirtækja. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði í gær stýrivexti um 0,5 prósentustig niður í 2,25% til þess að bregðast við versnandi horfum í efnahagslífinu í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar, COVID-19 en degi áður hafði ríkistjórnin kynnt aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum vegna kórónuveirunnar.

Sjá einnig: Ekkert fast í hendi

„Vaxtalækkanir núna má bera saman við aðgerðir um að fara í markaðssetningu á Íslandi sem ferðamannastað eftir að óvissan hefur gengið yfir. Það myndi engum detta í hug að fara í þær aðgerðir núna og að mínu mati á það sama við um vaxtalækkanir þar sem það er enginn að fara að taka lán á hagstæðum vöxtum ef viðkomandi heldur að það sé ekkert að fara að gerast næstu mánuði.

Eins er banki ekki að fara að ákvarða vaxtakjör til fyrirtækja út frá stýrivöxtum akkúrat núna heldur út frá greiðslugetu fyrirtækjanna sem hefur almennt versnað. Vextir eru fyrst og fremst til þess fallnir að auka eftirspurn eftir fjármagni en ekki framboð þess. Þess vegna þarf umhverfið að vera móttækilegt við eftirspurnahvata en í núverandi óvissu hefur vaxtastig lítil áhrif á fjárfestingu eða einkaneyslu. Það gæti því verið betra að eiga vaxtalækkanir inni þegar sér fyrir endann á ástandinu.“

Að mati Kristrúnar eru lægri eiginfjárkröfur, þá sér í lagi sveiflujöfnunaraukar bankanna, sterkasta tólið til að takast á við ástandið sem nú stendur yfir.

„Það eru vissulega skiptar skoðanir um hverjar eiginfjárkröfurnar eiga að vera en núna erum við ekki að tala um almennt ástand heldur frekar hvort eigi að fjarlægja sveiflujöfnunarauka. Þeir voru settir á til þess að mæta ófyrirséðum áföllum og núna er skólabókardæmi um hvenær eigi að taka þá af.

Ástæðan fyrir því að það þarf að ráðast í þessar aðgerðir út frá viðskiptalegum forsendum er að bankar sem eru núna að setjast yfir lánabækurnar eru að átta sig á því að félög sem eru lífvænleg, standa vel og eru heilt yfir vel rekin eru að fá stopp í tekjustreymi og geta þarf af leiðandi ekki sinnt hefðbundnum greiðslum. Bankarnir myndu sjálfir tapa með því veita þessum félögum ekki fyrirgreiðslu þar sem þeir myndu þá líka tapa undirliggjandi lánum sem myndi þýða útlánatap fyrir þá.

Vandinn fer aftur á móti að skapast þegar verið er að skoða félög sem hafa átt í vandræðum í rekstri áður en þetta áfall reið yfir, eru ekki lífvænleg og með lítið eigið fé. Þetta eru félög sem hafa ekki verið að fá fyrirgreiðslu og fá líklega ekki fyrirgreiðslu núna þrátt fyrir þetta áfall sem mun líklega ýta þeim yfir brúnina.

Mesti vandinn er svo með fyrirtækin sem eru þarna á milli. Það verða einhver félög á gráu svæði varðandi lífvænleika og ef við viljum að bankar taki sénsinn á þeim félögum þá verða þeir að þora að tapa á þessari fyrirgreiðslu. Ef þeir taka ranga ákvörðun og veita aukafyrirgreiðslu til félags sem þeir voru að fara að tapa á hvort sem er þá tapa þeir bæði láninu og fyrirgreiðslunni og farnir að ganga á eigið fé hjá sér.

Ég held það sé mjög mikilvægt í svona árferði að leyfa bönkunum að ákveða hverjum þeir bjarga. Þeir munu bjarga þeim félögum sem þeir telja eðlilegt að bjarga undir þessum kringumstæðum en þá mega þeir ekki vera hræddir um að þeir séu að brjóta reglur.

Í þessu samhengi má benda á að þrátt fyrir að lausafjárstaða bankanna hafi verið styrkt er nú þegar til ríflegt laust fé í tveimur af þremur bönkunum þó að það saki ekki að hafa aðeins meira svigrúm undir þessu kringumstæðum. Bankar eru hins vegar ekki að fara að veita meiri fjármögnun til fyrirtækja ef þeir eru komnir nálægt eiginfjárkröfum óháð lausafjárhlutföllum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .