Flugfélagið Wizz air stefnir að því að hefja flug milli Litháensku borgarinnar Vilníus og Íslands í október og mun flugleiðin verða starfrækt allt árið um kring.

Wow air hefur áður boðið upp á ferðir til borgarinnar en þá einungis yfir sumartímann. Wizz air stundar einnig áætlunarflug um þessar mundir frá Gdansk í Póllandi og nýverið bættust við reglulegar ferðir hingað il lands frá Varsjá og Búdapest á vegum félagsins.

Samkvæmt vefsíðunni turisti.is stefnir því í að Wizz Air verði eitt umsvifamesta erlenda flugfélagið hér á landi yfir vetrarmánuðina en félagið er fimmta stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu. Talsmaður félagsins sagðist aðspurður ekki útiloka að flugið til Íslands eigi eftir að aukast enn frekar enda séu forsvarsmenn félagsins sífellt í viðræðum við flugvelli um hugsanlegar nýjar leiðir.

Wizz Air er í dag með starfsstöðvar á 25 flugvöllum í austurhluta Evrópu og flýgur þaðan til fjölmargra áfangastaða um alla álfuna. Wizz Air er jafnframt með starfsemi í Prag en talsmaður félagsins vildi hins vegar ekki segja til um hvort flug þaðan til Íslands sé í farvatninu.