Fjármálatímaritið The Banker, sem er í eigu útgáfufélags Financial Times, birti ítarlega umfjöllun um íslenska bankakerfið í dag. Meðal viðmælenda eru Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármála hjá Íslandsbanka og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

The Banker spurði Benedikt út í gagnrýni á söluna á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars síðastliðnum. Tímaritið minntist á skýrslu Ríkisendurskoðunar og ályktun stofnunarinnar um að hægt hefði verið að fá hærra verð og að stuðst hafi verið við huglægt mat við val á tilboðum.

„Að sjálfsögðu er þetta áhyggjuefni,“ segir Benedikt um gagnrýnina. „Traust til fjármálakerfisins okkar er í húfi. Eftir á hyggja, þá hefði átti að styðjast við sama fyrirkomulag og í frumútboðinu árið 2021, þ.e. almennu hlutafjárútboði með þátttöku almennings.

Íslenski fjármálamarkaðurinn er sennilega of smár og alþjóðlegur áhugi of lítill til að keyra á tilboðsfyrirkomulagi, einungis með þátttöku stofnanafjárfesta fyrir bankaeign í ríkiseigu.“

Enn að vinna upp traust til bankanna

Blaðamaður The Banker sagði erfitt að ímynda sér, í ljós þess hversu vel hagkerfi og bankakerfi Íslands hefði vegnað að undanförnu, að hugsa til þess að fyrir fjórtán árum hafi bankakerfið verið að þrotum komið auk þess að gengi íslensku krónunnar hrundi. Enn sé þó verið að vinna upp traust til bankakerfisins.

„Skandinavíski samfélagssáttmálinn byggir á trausti til stofnana. Það traust hefur verið brotið og það er bæði langt og erfitt verkefni að byggja það upp aftur,“ er haft eftir Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra.

Hann segir að til merkis um aukið vantraust í kjölfar fjármálahrunsins, þá hafi reiðufé í umferð aukist. Jafnframt mætti sjá merki um að aukinn ágreining innan stjórnmálakerfisins, með fjölgun flokka og klofnari þjóðfélagsumræðu. Þessi þróun eigi þó ekki bara við um Ísland.

Benedikt segir að viðskiptabankarnir viðurkenni að þeir þurfi að gera meira til að vinna upp traust viðskiptavina. „Við erum ekki búin að endurheimta traustið og ná því upp á sama stað og það var áður.“

Benedikt starfaði um tíma sem ráðgjafi hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og var varaformaður starfshóps stjórnvalda um afnám fjármagnshafta á árunum 2013-2016. Hann segir því að traust til bankastofnana sé honum hjartans mál.

„Ég tók þátt í þeirri vinnu að reyna að fyrirbyggja annað hrun. Afleiðingarnar voru skelfilegar; þú vilt ekki að börnin þín þurfi að ganga í gegnum þetta.“

Jón Guðni tók undir að það taki tíma að vinna upp traust. Íslandsbanki reyni eftir bestu getu að vera með skýra og gegnsæja verðskrá.

Fjártæknifyrirtæki að ryðja sér til rúms

The Banker fjallaði einnig um innreið fjártæknifyrirtækja á markaðinn og ræddi við Hauk Skúlason, meðstofnanda áskorendabankann indó, og Gunnar Hafsteinsson, framkvæmdastjóra Símans Pay.

Benedikt segir að íslensku bankarnir geti lært mikið af fordæmi þessara fyrirtækja, m.a. þegar kemur að hinu einfalda vöruframboði þeirra.

Jón Guðni minntist á að Íslandsbanki hefði síðustu 3-5 árin fjárfest í innviðum til að bæta stafræna þjónustu sína. Bankinn hefði auk þess fjárfest í vélvæðingu til að einfalda og ná fram hagræðinu í rekstri.

„Við erum hins vegar alþjóðlegur banki með fjölda vara, sem felur í sér hærri kostnað vegna þeirra staðla og kvaða sem því fylgir. Við spyrjum okkur oft að því hvort við getum verið allt fyrir alla?“ segir Jón Guðni. Hann bætir jafnframt við að bankinn hefur fækkað þónokkrum útibúum á undanförnum árum og sé nú með skilvirkt net útibúa.

Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármála hjá Íslandsbanka.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)