Fyrirtæki sem hafa „like“ hnapp frá Facebook á vefsíðum sínum geta verið gerð ábyrg fyrir söfnun Facebook á persónuupplýsingum í gegnum síðurnar. Þetta er niðurstaða Evrópudómstólsins að því er Reuters greinir frá.

Dómstólinn tókst á við kvörtun þýskra neytendasamtaka gegn tískuvörufyrirtækinu Fashion ID sem hafði „like“ hnapp frá Facebook á síðu sinni. Þó fyrirtæki geti verið gerð samábyrg með Facebook á söfnun persónuupplýsinganna bera þau ekki ábyrgð fyrir því hvernig Facebook vinnur úr upplýsingunum samkvæmt niðurstöðu dómstólsins.

Evrópudómstólinn benti á að fyrirtæki hagnist á því að hafa „like“ hnapp á vefsíðunni þar sem slíkt gerði fyrirtækjum auðveldara að auglýsa vörur sínar á Facebook. Niðurstaðan er í takt við GDPR, persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins, sem tók gildi á síðasta ári.

Nils Rauer, meðeigandi á lögmannsstofunni Pinsent Masons, segist ekki eiga von á að fyrirtæki hætti að setja upp „like“ hnappa frá Facebook á síðum sínum. Fyrirtæki muni þó þurfa að huga betur að því hvernig uppsetningunni sé háttað til að tryggja að hún standist lög.