Fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, er spáð sigri í þingkosningum á Ítalíu sem fara fram í dag og á morgun. Sú ríkisstjórn sem verður mynduð eftir kosningarnar verður sextugasta og önnur ríkisstjórn Ítalíu á síðustu 63 árum.

Berlusconi, sem nú er orðinn 71 árs gamall, sat heilt kjörtímabil sem forsætisráðherra á árunum 2001 til 2006. Hann tekst nú á við borgarstjóra Rómar, Walter Vetroni, um að leiða ríkisstjórn Ítalíu. Nýjustu kannanir benda til þess að Berlusconi hafi sex til níu prósentustiga forskot á Veltroni. Síðasta ríkisstjórn undir forystu Romano Prodi sprakk eftir aðeins 20 mánuði.

Bæði Berlusconi og Veltrani hafa lofað skattalækkunum til blása lífi í einkaneyslu til að auka hagvöxt á Ítalíu, sem er talinn munu verða aðeins 0,3% á þessu ári og hinu næsta samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Berlusconi orsakaði nokkuð uppnám í ítalskri þjóðmálaumræðu um daginn þegar hann sagði vinstrimenn vera smekklausa á flestum sviðum. Sérstaka athygli vöktu ummæli hans um að konur á vinstri vængnum væru jafnvel ófríðari en stöllur þeirra á hægri kantinum.